131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[16:03]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka þessa umræðu. Hún er af sama toga og þrjár eða fjórar fyrri umræður á þessu haustþingi.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefnir hér þær tölur er ég nefndi í fyrri ræðu minni. Ég verð nú að fara fram á það við þingmanninn að hann taki sig á í hugarreikningnum því að 600 millj. eru eingöngu vegna þeirra aðgerða sem ákveðnar hafa verið á þessu ári og nýtast sveitarfélögunum á hverju ári héðan í frá. Þar að auki er talað um árlegt framlag í jöfnunarsjóð undanfarin ár og á þessu ári og auknar heimildir sveitarfélaganna á undanförnum árum til innheimtu útsvars þannig að milljarðarnir sem þetta telur á hverju ári, hv. þingmaður, eru ansi margir, á föstu verðlagi ársins í fyrra 21 milljarður frá árinu 1999.

Menn verða hins vegar að hafa það í huga að að störfum eru tekjustofnanefnd og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem fara yfir tekjugrundvöll sveitarfélaganna, einkum þeirra sem höllum fæti standa fjárhagslega. Og það er rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson benti hér á, þessi vandi er misjafn. Hann kemur misjafnlega niður á sveitarfélögunum og það er nákvæmlega þess vegna sem mjög rík ástæða er til þess, hæstv. forseti, að fara nákvæmlega ofan í það hvaða sveitarfélög standa höllum fæti, hvers vegna og hvernig hægt sé að bregðast við þeim vanda. Það er um það sem það verkefni snýst sem við nú vinnum, ríkisvaldið með sveitarfélögunum, það er um það sem vinna tekjustofnanefndarinnar snýst og um það eru ríki og sveitarfélög sammála.