131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:08]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra mælir fyrir er önnur hlið af skattheimtunni, það er verið að færa í notendagjöld ákveðna tekjustofna á vegum ríkisins. Hluti af þessu verður að því sem við köllum eftirlitsiðnaðinn eða þær álögur sem lagðar eru á bæði einstaklinga og atvinnurekstur með öðrum hætti en beinum skattgreiðslum.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í er að ég átta mig ekki alveg á þessum tengslum gerðar númeraplatna og Fangelsismálastofnunar.

Um 14. grein stendur hér, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hafa tekjur af framleiðslu og sölu númeraplatna á bifreiðar fjármagnað hluta af rekstrarkostnaði Fangelsismálastofnunar. Tekjurnar ráðast fyrst og fremst af fjölda nýskráninga á ári hverju og hafa því sveiflast töluvert milli ára í takt við bifreiðainnflutning. Fyrirkomulag þessarar tekjuöflunar hefur þannig valdið töluverðum sveiflum í afkomu Fangelsismálastofnunar …“ og það held ég að öllum sé skiljanlegt. Hvernig tengist þetta? Voru það fangar sem unnu við þessar númeraplötur eða með hvaða hætti tengdist þessi númeraplatnagerð Fangelsismálastofnun í fyrsta lagi, og í öðru lagi: Er hér verið að færa aukin gjöld yfir á bifreiðaeigendur? Er verið að hækka það gjald sem bifreiðaeigendur þurfa að greiða fyrir númeraplöturnar með þessum lagabreytingum?