131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:14]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að ég sé rétti maðurinn til að svara síðari hluta spurningar þingmannsins um almenn störf þeirra sem lúta frelsissviptingu. En hvað númeraplöturnar varðar verður það óbreytt, sú framleiðsla verður áfram á Litla-Hrauni. Það sem breytist er verðlagningin á plötunum frá Fangelsismálastofnun til Umferðarstofu. Hugmyndin er sú að í stað þess að framleiða þessar plötur og selja þær með álagningu verði þær seldar eingöngu á kostnaðarverði en stofnunin sem hafi notið þessara sértekna fái beint framlag úr ríkissjóði sem nemur þeirri tekjuminnkun sem þar er um að tefla. Á móti er síðan lagt þetta gjald á númeraplöturnar hjá Umferðarstofu og það rennur í ríkissjóð. Þar með er hringnum lokað.

Ávinningurinn er sá að Fangelsismálastofnun býr þá ekki lengur við sveiflukenndar tekjur sem ráðast af því hversu margir bílar eru fluttir inn í landið. Það held ég að sé eðlileg breyting vegna þess að starfsemi Fangelsismálastofnunar er allt annars eðlis en svo að tekjur stofnunarinnar eigi að sveiflast til og frá með einhverri slíkri utanaðkomandi stærð.