131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:26]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra um endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs, þ.e. breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

Það er í sjálfu sér skondið eða svolítið kátbroslegt að hér er rætt um hækkun á sköttum, það er verið að leggja til að ýmis gjöld sem lögð eru á einstaklinga sem stunda ákveðna starfsemi og fyrirtæki þeirra verði hækkuð, en á hinn bóginn erum við með frumvarp í þinginu sem felur í sér að lækka skatta og skerða tekjur ríkissjóðs. Maður sér að það er greinilega ekki mikið samhengi í hlutunum nema helst í stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka gjöld og álögur á notendur hinnar ýmsu þjónustu og rétthafa til þess að mega stunda ákveðin störf. Sú stefna kemur jafnt niður á þeim sem hafa miklar tekjur og breið bök og á hinum sem hafa minni ráðstöfunartekjur.

Þetta er sem sagt hluti af eftirlitsiðnaðinum sem hefur byggst hvað hraðast upp á síðustu árum og missirum, að fyrst eru settar kvaðir á um að það verði að fá leyfi fyrir öllu mögulegu, gott og vel, en síðan er ekki skilgreint hvaða þjónusta eða ábyrgð á að felast í viðkomandi leyfi eða viðkomandi gjaldi. Þá kemur eftirlitið til að fylgjast með því að viðkomandi starfi eins og hann hefur verið að borga fyrir í leyfisgjaldi.

Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt þessa stefnu ríkisvaldsins undanfarið, að færa stöðugt aukna gjaldtöku yfir á einstaklinga og atvinnulíf án þess að skilgreind þjónusta eða ábyrgð fylgi. Síðan er nokkurs konar sjálftökuréttur að senda eftirlitsmennina á eftir til að fylgjast með að staðið sé rétt að öllu og kostnaðurinn sem viðkomandi fyrirtæki þurfa að bera af eftirlitinu stendur fyrir utan þann kostnað. Þar sem megnið af þeim aðilum sem gefa út leyfin og hafa rétt til þess að sinna eftirlitinu eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu þýðir það að eftirlitsmaðurinn fer héðan vestur á firði eða norður í land og viðkomandi fyrirtæki verður að borga kostnaðinn, ferðir, dvalarkostnað og annað þvíumlíkt sem er stöðugt meira íþyngjandi.

Lítum aðeins á þau atriði sem talað hefur verið um í frumvarpinu. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gert hækkun á dómsmálagjöldum að umtalsefni, gjöld sem leggjast yfirleitt jafnt á alla þolendur án þess að skilgreint sé hvaða þjónusta er að baki gjöldunum. Þetta er því bein skattheimta sem verið er að framkvæma þar. Sem dæmi er verið að hækka kröfur á opinberum skiptum á dánarbúum, fyrir kröfu um opinber skipti til fjárslita milli hjóna og fyrir opinber skipti til slita á félagi. Það eru líka ýmis önnur gjöld hér, eins og leyfi til sjúkraliða, matartækna, lyfjatækna, fótaaðgerðafræðinga, leyfi til hnykkja o.s.frv. Verið er að hækka leyfisgjöldin, sem er einfaldlega skattur á viðkomandi einstaklinga sem sinna þessum störfum.

Tökum t.d. leyfi til viðskiptafræðinga, leyfi til fasteigna- og skipasala, leyfi til leigubifreiðaaksturs. Hérna er beinlínis verið að hækka leyfisgjöldin. Hverjir eiga svo að bera leyfisgjöldin? Verða það ekki neytendur þessarar þjónustu? Verið er að varpa kostnaðinum með því að hækka gjöldin á almenna notendur sem þiggja þjónustuna.

Verið er að herða skattstefnu ríkisstjórnarinnar með því að láta einstaklinga borga í formi þjónustugjalda. Hér stendur t.d. að verið sé að hækka, með leyfi forseta: „Hótelleyfi, veitingahúsaleyfi, leyfi fyrir skemmtistað, leyfi fyrir næturklúbb,“ — gott og vel — „kaffihús, dansstað og krá.“ Einnig er verið að hækka leyfi fyrir gistiheimili, veitingastofuleyfi, greiðasöluleyfi, leyfi til að selja gistingu á einkaheimilum, gistiskálaleyfi, veisluþjónustuleyfi, veitingaverslunarleyfi og gjald fyrir endurnýjun á leyfi.

Verið er að hækka leyfisgjöldin án þess að nokkuð fylgi með hvað sé fólgið í þjónustunni. Hvað ætlar ríkið að gera í staðinn annað en að innheimta leyfin? Síðan er sendur her af aðilum til þess að fylgjast með og annast eftirlitið á stöðunum. Þar kemur gríðarlegur kostnaður viðkomandi aðila. Ef það stæði í leyfisveitingunum að innifalið væri ein heimsókn á ári eða tveggja ára fresti til að taka út kostnað vegna heimsóknarinnar, þ.e. laun, ferðakostnaður og dvalarkostnaður þess sem færi í úttektina væri þó eitthvað inni. Það er ekkert slíkt þannig að sá kostnaður fellur allur á viðkomandi. Mér finnst alveg ótækt að setja á gjöld og hækkun á gjöldum án þess að menn skilgreini jafnframt hvað þau eigi að innibera.

Við heyrum sögur af bátaflotanum. (HBl: Og leyfi til rekstrar á skotvopnaverksmiðju, 3 þús. kr.) Já, jafnmikið og að fá kindabyssuleyfi. Leyfið til að reka skotvopnaverksmiðju er jafnhátt og leyfið til að bera kindabyssu. Sjáið þið samhengið í þessu. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti að endurskoða þetta rugl, alla vega samhengi hlutanna í þessu.

Hér er t.d. eitt sem gæti verið mjög athyglisvert fyrir hæstv. utanríkisráðherra: Leyfi til þess að fara með sprengiefni og annast sprengingar kostar bara 6 þús. kr., en almennt skotvopnaleyfi 3 þús. kr. Samhengi hlutanna er því, eins og hv. 2. þm. Norðaust. benti á, býsna skondið.

Hins vegar er komið hérna brennuleyfi á 5 þús. kr. Hvað á að brenna? Ég veit ekki hvort menn séu að fara aftur á brennuöldina, en brennuleyfi kostar 5 þús. kr. Það kemur ekkert fram hvað er innifalið í brennuleyfinu, hvort því fylgir eftirlit, trygging eða hvað. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Mér finnst farið mjög mikið aftan að hlutunum í skattheimtunni. Menn gefa bara út lista, taka gjald fyrir þetta, taka leyfisgjald fyrir hitt og þetta án þess að það sé nokkuð skýrt hvað sé innifalið.

Samtök atvinnulífsins hafa einmitt í tillögum sínum bent á að þetta sé orðið verulega hamlandi fyrir frumkvöðulsstarf í atvinnulífinu, að fyrst þurfi menn að borga hátt leyfisgjald áður en þeir geta farið í gang með lítinn rekstur. Síðan kemur allur eftirlitsiðnaðurinn í halarófu á eftir. Beinn kostnaður af eftirlitsiðnaðinum er á milli 7 og 8 milljarðar kr. sem menn greiða að hluta til til ríkisins og að hluta til til eftirlitsstofnana. Væri ekki rétt að skilgreina einhverja ákveðna þjónustu í gjaldinu þannig að þegar menn greiddu veitingahúsaleyfi þyrfti viðkomandi ekki að kaupa þá þjónustu? Það munar um að borga 20 þús. kr. fyrir leyfi og til viðbótar allt eftirlitið í litlum veitingahúsarekstri eða gistihúsarekstri úti um land og borga svo ferðakostnað og uppihaldskostnað þeirra sem koma og líta eftir. Það ættu að vera lágmark ein til tvær heimsóknir innifaldar í gjaldinu.

Frú forseti. Ég gat ekki orða bundist því það er ekkert samræmi í þeim gjaldtökum sem hér eru á ferðinni, hvorki áhættur eða skyldur ríkisins. Maður skyldi ætla að einhver grundvöllur væri á bak við gjaldheimtuna, umfang rekstursins og ábyrgð gagnvart samfélaginu og þá ábyrgð sem ríkisvaldið tekur á sig með því að veita leyfið. En eins og þetta birtist hér er þetta púra skattheimta og ávísun fyrir eftirlitsiðnaðinn til þess að raka saman fé á bæði stórum og smáum á meðan ríkisvaldið situr eins og lítill púki í horninu og rakar að sér leyfisgjöldum.