131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:47]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum núna frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88 frá 1990, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er að finna tillögu að hækkun margvíslegra gjalda sem flest hver hafa haldist óbreytt að krónutölu frá árinu 1997 eða lengur. Lagt er til að gjöldin hækki um 10% að jafnaði, þó þannig að fjárhæð þeirra standi, eftir atvikum, á hálfu eða heilu hundraði. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hefur hækkað um tæplega 34% frá árinu 1997 til áætlaðs meðalverðlags á mælikvarða neysluvísitölu fyrir árið 2005. Þessi hækkun er í takt við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2005 og er talin skila um 200 millj. kr. á ársgrundvelli.“

Ég get tekið undir það sjónarmið sem kemur fram í athugasemdum með lagafrumvarpi þessu, að nauðsynlegt sé fyrir okkur að endurskoða aukatekjur ríkissjóðs. Helst ættum við að gera það mun reglulegar en hér er verið að leggja til, þ.e. ef það væri svo í flestum tilvikum að þessi gjöld hefðu haldist óbreytt að krónutölu frá árinu 1997. Þegar maður fer að skoða lögin um aukatekjur ríkissjóðs sér maður að á þeim hafa orðið talsvert miklar breytingar frá árinu 1997. Þannig tóku gildi lög nr. 28/1998, 159/1998, 8/1999, 26/1999, 29/1999, 55/2000, 59/2001, 145/2002 og 72/2003. Á þessum lögum um aukatekjur ríkisins hafa sem sagt orðið talsvert miklar breytingar frá árinu 1997.

Í ljósi þess texta sem kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið er fróðlegt að velta fyrir sér hvort það séu þá eingöngu einhvers konar orðalagsbreytingar í öllum þessum breytingum á lögum eða hvort þarna er um að ræða að verið sé að breyta fjárhæðunum eða setja inn nýja gjaldaliði og þá um leið nýjar fjárhæðir.

Það tæki allt of langan tíma að fara að skoða öll þessi lög frá 1998 og 1999 þannig að ég læt duga að skoða á handahlaupum lög frá árunum 2000, 2001 og 2002. Þar koma inn ansi mörg atriði sem eru ný eða verið er að fara í breytingar á upphæðum.

Í lögum nr. 55/2000 eru miklar upptalningar, m.a. um leyfi fyrir alls konar starfsemi tannfræðinga, matarfræðinga, náttúrufræðinga o.s.frv., og þar stendur:

„Fyrir endurnýjun framantalinna leyfa og skírteina skal greiða 1.000 kr.“ — Þetta gerist á árinu 2000 en samt sem áður hækkar þessi upphæð núna um 10%.

Rétt til að kíkja í hin lögin eru hér lög frá 26. maí 2001. Þar kemur t.d. inn útflutningsleyfi, 1.200 kr., leyfi til skoteldasýningar, 5.000 kr., og brennuleyfi, 5.000 kr. Þetta gerist á árinu 2001, samt er verið að hækka þetta um 10% núna í því frumvarpi til laga sem við fjöllum hér um.

Á árinu 2001 koma einnig inn ýmsir liðir varðandi útgáfu vegabréfa. Þar segir t.d. í 5. gr.:

„Á eftir 2. tölul. koma þrettán nýir töluliðir, svohljóðandi:

3. Fyrir útgáfu diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa:

a. Fyrir 18–66 ára 4.600 kr.“

Þetta gjald hækkar núna um 10%. Svona gæti maður í raun haldið áfram að telja nokkuð lengi. Því verð ég að segja að textinn í athugasemd með lagafrumvarpinu eins og það er lagt fram núna er í besta falli villandi þar sem segir að flest hver þessara gjalda sem verið er að leggja til að hækki hafi haldist óbreytt að krónutölu frá árinu 1997 eða lengur. Það kemur þvert á móti í ljós að mörg þessara gjalda hafa komið inn ný eða verið hækkuð á árunum 2000, 2001, 2002 og 2003.

Því held ég að þegar efnahags- og viðskiptanefnd fer yfir þetta þurfi hún að skoða sérstaklega hvaða gjöld það eru sem hafa haldist óbreytt frá árinu 1997 og kannski eðlilegt að þau taki nú 10% hækkun en skoða þá um leið hvaða gjöld eru nýrri, hvaða gjöld hafa breyst á árunum 2000, 2001 og 2002 og hvort ástæða sé til að þau hækki nú um 10% eins og hér er lagt til.

Þegar maður rennir hratt í gegnum þessi lög sýnist mér reyndar full þörf á að fara einmitt í hortittaleit, fara í leit varðandi það hvaða liðir eru þarna inni í lögum sem engin ástæða er til að hafa inni. Í tilefni af orðaskiptum hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar og hæstv. fjármálaráðherra varðandi gjöld vegna sérstakrar þjónustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar um að þetta væri gamall hortittur í lögunum er þessu breytt í lögum nr. 59/2001. Þar segir í 6. gr., með leyfi forseta:

„Gjöld vegna sérstakrar þjónustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar. […]

Greiða skal gjöld fyrir sérstaka þjónustu er starfsmenn utanríkisþjónustunnar veita svo sem hér segir:

1. Fyrir aðstoð við útvegun vottorða […]

2. Fyrir þýðingar […]

3. Fyrir milligöngu um birtingu stefnu […]“

Og akkúrat það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson var að tala um:

„5. a. Fyrir millifærslu allt að 50.000 kr. 3.000 kr.“ o.s.frv.

Það kemur reyndar mjög á óvart ef það kostar orðið meira að millifæra 200 þús. kr. en að millifæra 50 þús. kr. Ég hélt að millifærsla væri sama aðgerðin, sama hver upphæðin væri.

„c. Fyrir millifærslu yfir 200.000 kr. skal greiða 3,75% af millifærðri fjárhæð […]“

Það er ekki lítið. Þetta er upp undir sömu vextir og Íbúðalánasjóður er að heimta núna af 40 ára lánum. Til að gæta allrar sanngirni segir líka í greininni „[…] en þó ekki hærra en 37.500 kr.“ Jafnvel þó að menn væru að færa milljónir á milli mundi ríkissjóður ekki rukka þá um 3,75%.

200 millj. kr. eru ekkert litlir fjármunir og það er það sem hér er verið að leggja til að gjöldin hækki. Mat fjármálaráðuneytisins á ársgrundvelli er að þetta þýði 200 millj. í auknar tekjur.

Við hlustuðum á hæstv. félagsmálaráðherra í morgun berja sér á brjóst yfir því að verið væri að bæta við heilum 400 millj. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nú væru sveitarfélögin í góðu lagi, það þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim. Þarna er bara helmingurinn af því sem verið er að tala um að setja í jöfnunarsjóðinn sem ríkissjóður ákveður á einu bretti með aukatekjum að hækka og taka í ríkissjóð.

Ég held, frú forseti, að aðalverkefni efnahags- og viðskiptanefndar hljóti að vera að fara yfir tvennt varðandi þetta frumvarp til laga, annars vegar hvaða liðir eiga heima þarna inni, hvaða liðir eru orðnir of gamlir og hvaða liðir eiga í raun og veru ekkert heima inni í gjaldskrá ríkisins, og hitt, eins og ég nefndi áðan, hvaða liðir eru frá árinu 1997 eins og athugasemdin segir og eðlilegt að taki hækkun allt að 10% en líka hvaða liðir eru þarna yngri. Kannski er engin ástæða til að huga að mikilli hækkun á gjöldum sem sett voru 2001 eða 2002.