131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrsissjóður sjómanna.

376. mál
[17:01]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Oft hefur nú verið tekið til við það á hv. Alþingi að gera breytingar ef þurft hefur á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. En frumvarpið sem hér birtist er hins vegar um það að fella þau lög algjörlega úr gildi og láta hina almennu reglu laga um starfsemi lífeyrissjóða í landinu frá 1997 taka yfir varðandi starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna. Auðvitað hefur Lífeyrissjóður sjómanna að hluta til starfað undir þeim lögum eins og aðrir lífeyrissjóðir og m.a. hafa ákvæði þeirra laga verið notuð á undanförnum árum til þess að knýja fram breytingar í þá veru að skerða réttindi í sjóðnum á grundvelli þess sem í hinum almennu lögum um lífeyrissjóði segir, þ.e. að sjóður skuli eiga fyrir skuldbindingum sínum og að stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs beri að aðhafast eða koma með tillögur ef hún telur að svo verði ekki. Í samræmi við hina almennu löggjöf hefur það komið upp í lífeyrissjóði sjómanna, að ég hygg á undanförnum árum tvisvar sinnum, að taka til við að breyta innunnum réttindum í Lífeyrissjóði sjómanna.

Virðulegur forseti. Ef ég man rétt féll nýverið dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli sjómanns varðandi Lífeyrissjóð sjómanna. Hann dæmdi það ólögmæta aðgerð að taka réttindi af sjómanninum. Ég hygg að nokkrir sjómenn hér á landi sem urðu fyrir sams konar skerðingu og umræddur maður eigi rétt á lagfæringu í Lífeyrissjóði sjómanna. Hins vegar er ekki víst að allir þeir sem slíkt ákvæði gæti náð til séu í stakk búnir til að sækja þann rétt eða hyggist sækja hann. Það er svo annað mál. Ég vildi aðeins láta þessa getið vegna þess að oft höfum við í hv. Alþingi því miður þurft að skerða réttindin í Lífeyrissjóði sjómanna.

Lífeyrissjóður sjómanna er að mörgu leyti nokkuð sérstakur að ýmsu leyti. Ég held að við getum alla vega nefnt eitt sérstakt atriði sem hefur verið viðvarandi í Lífeyrissjóði sjómanna og reyndar einhverjum öðrum lífeyrissjóðum sem hafa að meiri hluta haft sjómenn innan sinna vébanda. Það er hin mikla greiðslubyrði sem fallið hefur á lífeyrissjóðina vegna örorkuþáttarins sem hefur komið til og iðulega fylgt sjómannsstarfinu. Þetta tengist slysatíðni og því miður hefur örorkan oft verið algengari hjá undirmönnum en yfirmönnum vegna eðlis starfsins og hversu hættulegt það getur verið að starfa á dekki fiskiskipa. Um 45%, ef ég man rétt, af öllum greiddum útgjöldum eða bótum Lífeyrissjóðs sjómanna hafa verið kostnaður vegna örorku. Að þessu leyti held ég að Lífeyrissjóður sjómanna sé nokkuð sérstakur. Reyndar eru einnig til lífeyrissjóðir, t.d. í Vestmannaeyjum, ef ég man rétt, með 42–43% miðað við síðustu tölur sem ég sá og einhverjir aðrir, t.d. Lífeyrissjóður Austurlands og Lífeyrissjóður Bolungarvíkur, svo einhverjir séu nefndir, bera einnig hlutfallslega mjög mikla byrði vegna örorkuþáttarins.

Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að hinir einstöku lífeyrissjóðir úti um landið hafa tekið upp ýmis ákvæði varðandi lífeyrisrétt sjómanna sem hafa verið í lögum um Lífeyrissjóð sjómanna og notað þær reglur. Ég ætla því ekki að segja hér já einn, tveir og þrír við því að fella þessi lög niður. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé nú ekki nokkuð óvanalegt að mæla fyrir þessu frumvarpi alveg undir mánaðamótin nóvember/desember og ætlast til að það verði að lögum 1. janúar á næsta ári.

Hæstv. forseti. Ég hefði haldið að rétt væri rétt að gaumgæfa þetta mál. Það getur vel verið að starfsmenn í fjármálaráðuneytinu og reiknimeistarar aðrir hafi komið að því að skoða þessi mál vel. En ég tel að til þess að fara í gegnum þetta þá þurfi menn að skoða ýmsa þætti. Ég nefni m.a. örorkuþáttinn sem einn þeirra þátta sem er öðruvísi í Lífeyrissjóði sjómanna en mörgum öðrum lífeyrissjóðum. Ef ég man rétt þá var Lífeyrissjóður, ég held, Búnaðarbankans með lægstu örorkuna af öllum lífeyrissjóðum. Mig minnir að það hafi verið 8%, Þetta er mjög mismunandi.

Vera kann rétt að ekki finnist lengur rök til að viðhalda lögveði í skipum fyrir þessum iðgjöldum vegna þess að Ábyrgðasjóður launa tekur yfir þessa ábyrgð eins og á öðrum launum nú orðið og að hin gamla regla sem sett var um Lífeyrissjóð togarasjómanna um lögveð í skipum eigi því ekki lengur við. Að því gefnu að greiðslur í lífeyrissjóði séu jafn vel tryggðar fyrir og eftir breytinguna þá ætla ég fyrir fram ekki að tjá mig andvígan henni. En ég segi enn og aftur að ég tel að þessi mál þurfi miklu nánari skoðunar við áður en við klárum þessa lagasetningu, fyrir jól væntanlega ef markmiðið er að lögin taki gildi 1. janúar 2005. Á meðan ég hef ekki meiri upplýsingar um málið en koma fram í þessu stutta frumvarpi þá hef ég allan fyrirvara á um þetta.

Vera kann að til standi viðræður um sameiningar þessara lífeyrissjóða, sem ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi nefnt í ræðu sinni. Við vitum að fram fóru einhverjar viðræður milli Lífeyrissjóðs sjómanna og Lífeyrissjóðsins Einingar um sameiningu að mig minnir. Það kann vel að vera að það þjóni markmiðum allra að lífeyrissjóðirnir stækki og verði öflugri. Samkvæmt upplýsingum mínum er þó ekkert sérstakt í farvatninu varðandi þessi sameiningarmál sem knýr á um þann hraða sem lagt er upp með í afgreiðslu málsins hér. Ég held ég hafi heyrt það nýlega í fréttum að menn væru búnir að leggja þessi sameiningaráform til hliðar og sæju ekki ástæðu til að fara í þau að svo komnu máli.

Í samþykktum Lífeyrissjóðs sjómanna stendur að Lífeyrissjóði sjómanna sé heimilt að leita eftir samruna við aðra lífeyrissjóði. Í 3. gr. samþykkta sjóðsins segir, með leyfi forseta:

„Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við stjórnir annarra lífeyrissjóða um samruna. Stjórnin skal gæta þess að réttur sjóðfélaga sjóðsins verði ekki skertur við samrunann og jafnframt að hann sé ekki bættur á kostnað sjóðfélaga hinna sjóðanna.“

Ég átta mig nú ekki á því hvað þurfi meira en þetta til þess að menn geti sameinast. Ég vildi fá það upplýst frá hæstv. fjármálaráðherra í þessari umræðu hvaða atriði hafi komið upp sem e.t.v. gætu stoppað sameiningu ef menn hafa áhuga á henni. Ég sé ekki að neitt í starfsreglum Lífeyrissjóðs sjómanna komi beinlínis í veg fyrir það að öðru leyti en því að þeir gera kröfu um að staða manna í Lífeyrissjóði sjómanna versni ekki og jafnframt að við sameiningu sé allt bara metið á réttum grundvelli.

Það er líka rétt að minna á að við sem störfuðum á þessum kjarasamningum sjómanna í gegnum árin og eigum talsvert af okkar réttindum í Lífeyrissjóði sjómanna, álitum að á sínum tíma hefði myndast ákveðin bótaábyrgð af ríkinu til þess að greiða tilteknar skuldbindingar varðandi hina svokölluðu 60 ára reglu í Lífeyrissjóði sjómanna því sett voru lög um hana á hv. Alþingi án þess að tekjur fylgdu með á sínum tíma. Það er náttúrlega ekkert venjulegt að hér skuli vera hægt að segja lög um skyldur án þess að tryggja samsvarandi tekjur. Á þetta mál er búið að reyna og því miður hefur það farið svo að Hæstiréttur hefur talið að Lífeyrissjóður sjómanna eigi engan bótarétt í því máli. Þær kröfur mundu þar af leiðandi falla á sjóðfélaga. Ef ég man rétt þá var krafa gerð upp á 1,4 milljarða kr. á hendur ríkinu vegna 60 ára reglunnar á sínum tíma. En að gengnum dómi Hæstaréttar í þessu máli þá lendir þetta á sjóðfélögum nema hægt verði að finna því einhvern annan farveg sem ég átta mig nú ekki alveg á hver ætti að vera — ef til vill Mannréttindadómstóll Evrópu — um að ekki sé hægt að setja lög á menn nema borga ákveðna upphæð fyrir aðra. Það tel ég nú að hafi verið niðurstaða lagasetningarinnar hér árið 1981 um 60 ára regluna, ef ég man rétt, sem varð til þess að hún var tekin upp án þess að neinar tekjur kæmu samhliða.

Um þetta hafa staðið deilur og eins og ég sagði áður hefur fallið hæstaréttardómur í þessu máli og ekki rétt að lengja málið mikið með því.

Ég nefndi áðan örorkuþáttinn og fór með hann eftir minni. Ég fann hins vegar töflu í fórum mínum frá árinu 2001 þar sem farið er yfir örorkuþáttinn í nokkrum lífeyrissjóðum þar sem sjómenn eru þó nokkur hluti gjaldenda. Í þeirri töflu segir, með leyfi forseta, að Lífeyrissjóður Austurlands beri 45% af örorkulífeyri sjóðfélaga sinna miðað við árið 2001, af þeim lífeyri sem hann greiddi út. Þessi tafla miðaðist við að greiddur hefði verið út lífeyrir fyrir 321 milljón. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja greiddi einnig 45% í örorkuþáttinn af lífeyri sem hann greiddi út þá sem var 243 milljónir. Lífeyrissjóður sjómanna greiddi 43% í örorkuþáttinn af 975 millj. kr. greiðslu sýnist mér vera. Það er því auðséð að lífeyrissjóðir sem sjómenn eru aðilar að bera mikinn kostnað af örorkuþættinum og þeir eru talsvert öðruvísi samsettir að þessu leyti en aðrir lífeyrissjóðir. Ég held að menn þurfi að skoða þetta vandlega, hvað við erum að gera, hvort þetta samræmist þeim markmiðum að gæta hagsmuna þeirra sem eiga réttindi sín í Lífeyrissjóði sjómanna því að við hljótum að vera að horfa til þess í þessu sambandi. Það getur ekkert annað fengið að ráða för við breytingu á lögum að þessu leyti en að við verjum hagsmuni sjómanna og lífeyrisþega sem eiga rétt í lífeyrissjóðnum.

Því vara ég við því, hæstv. forseti, að við förum í einhverja fljótaskrift í þessu máli ef svo góðar upplýsingar liggja fyrir að allur vafi sé tekinn af um það að menn skaðist ekki við þessa lagasetningu. Þá kann vel að vera að það verði hægt að afgreiða málið en ég vara við því að við flýtum okkur og ég sé heldur ekki ástæðuna fyrir því að við klárum þetta mál á einum mánuði og mig mundi langa til að heyra rök hæstv. fjármálaráðherra fyrir því að málið gangi svo hratt fram sem frumvarpið gerir ráð fyrir.