131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:41]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Tveir ágætir spekingar úr þingsalnum, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og Guðmundur Hallvarðsson, hafa flutt ræður sínar um Lífeyrissjóð sjómanna. Ég ætla ekki að bæta miklu við þær hugleiðingar en kem til að nota þetta tækifæri til að ræða eilítið við þá og fjármálaráðherrann um hvernig kjör sjómanna hafa verið rýrð með tilteknum ríkisstyrk sem ég hygg að hafi staðið í um hálfa öld og gengur undir nafninu sjómannaafsláttur. Þá er átt við afslátt þann á tekjuskatti sem í orði kveðnu er veittur sjómönnum af tekjum þeirra. Hann er auðvitað ekki annað en styrkur til útgerðarinnar sem atvinnugreinar. Þannig var það líka í upphafi þótt ég kunni ekki að rekja það með staðfestum dæmum eða tölum.

Afslátturinn á sér það upphaf að á sínum tíma, ég hygg að það hafi verið á sjötta áratugnum eða jafnvel þeim fimmta, fengust menn trauðla á sjó vegna þeirra kjara sem í boði voru. Það ráð var að lokum tekið að ríkið bætti kjör þeirra með þessum skattafslætti.

Í fyrra lagði hæstv. fjármálaráðherra fram frumvarp um að afnema þennan afslátt og þótt deila megi um hvort það hafi verið skynsamlegt, ef ráðherrann yfir höfuð meinti eitthvað með því, á þeim tíma sem hann lagði frumvarpið fram, þá var það frumvarp að sjálfsögðu framhald af ákveðinni umræðu í samfélaginu öllu um að þessi svokallaði afsláttur væri óeðlilegur og í ósamræmi við skattkerfið sem við værum að búa til og einnig í ósamræmi við umhverfið sem við höfum á 10–20 síðustu árum búið atvinnulífinu. Í því felst að það standi sjálft uppi sem fjárhaldsmaður og þegar það leiti til opinberra aðila sé alveg skýrt að um styrki sé að ræða sem standist alþjóðlegar reglur og almenna skynsemi í hagstjórn og atvinnulífi. Undir þetta hafa forustumenn í atvinnulífinu, bæði atvinnurekendur og verkalýðsleiðtogar, tekið og fylgt þessu fram, enda hefði þetta ekki verið gerlegt án þeirra.

Nú má spyrja sig í hvaða tilgangi þetta hafi í raun og veru verið lagt fram því að hæstv. fjármálaráðherra er frægur fyrir ákveðin klókindi þó að hann sé iðulega bjartur í framan, eins og lítill drengur á sólardegi uppi í sveit. Vera kann að allt hafi þetta verið gert til þess að ríkið ætti eitthvað uppi í erminni þegar kom að þeim samningum sem nú er sem betur fer lokið og ber í leiðinni að fagna. Þetta er í fyrsta sinn í a.m.k. tvo áratugi ef ekki lengur sem sjómönnum og útgerðarmönnum hefur tekist að semja sín í milli án afskipta ríkisins. Það kunna að hafa verið klókindi hjá hæstv. fjármálaráðherra, a.m.k. liggur fyrir að liður í þessum samningum var að fjármálaráðherra lofaði því fyrir sína hönd, ríkisstjórnarinnar og þess þingmeirihluta sem hann hefur hér að þetta yrði ekki gert á, ég man ekki hvort heldur var, á samningstímabilinu eða kjörtímabilinu, að reynt yrði að afnema þennan sjómannaafslátt.

Ég skal ekki segja um þær aðstæður sem voru uppi við þessa samningagerð, hvort þá var mögulegt að gera það sem ég tel að hefði átt að gera, og tel að eigi að gera, að ríkið verður einhvern tíma að koma að samningum sjómanna og útgerðarmanna þannig að þetta mál leysist, að útgerðarmenn taki að sér að borga sjómönnum það fé sem felst í sjómannaafslættinum. Hann á, eins og ég sagði áður, uppruna sinn í því að vera styrkur til útgerðarmanna og það er hann, hann er ríkisstyrkur til útgerðarinnar.

Eitt af því sem menn hafa ekki komið auga í umræðu um þennan sjómannaafslátt — og ég veit að margir hafa á honum aðrar skoðanir en ég læt í ljósi hér, til þess eru skoðanir að maður láti þær í ljósi — er það hvernig það kemur út fyrir sjómenn sjálfa að búa við þessa sérstöku tegund af tekjum. Það sýnir sig auðvitað gagnvart lífeyrissjóðnum og gagnvart lífeyri sjómanna að það er ekki hagfellt fyrir sjómenn að búa við þetta.

Ég spurði fjármálaráðherra í fyrra um sjómannaafslátt og fékk ágæt svör, a.m.k. við þremur af fjórum spurningum, og þar á meðal kom fram að heildartala sjómannaafsláttarins, árið 2002 hygg ég að það hafi verið, var um 1.267 millj. kr. Ef við tökum bara einfaldan reikning má reikna með að hefðu þetta verið tekjur sjómanna hefðu þeir væntanlega borgað 10% af þessu fé, við skulum segja það, 6% og svo 4%, í lífeyrissjóð, og þar með hefðu Lífeyrissjóði sjómanna bæst 127 millj. kr. á þessu ári.

Ég spurði fyrst um árið 1994 og síðan áfram að þeim endimörkum sem fjármálaráðuneytið treysti sér til og þetta er upphæðin. Þetta hefur reyndar verið hærra, var hærra áður, 1994 t.d. er upphæðin 1.553 millj. og með sama reikningi má auðvitað taka 10% af því og segja að þetta vanti í Lífeyrissjóð sjómanna.

Það er fróðlegt að velta þessu fyrir sér. Mér sýnist líka — nú hef ég þann fyrirvara að ég var að reikna sjálfur sem maður á náttúrlega ekki að gera — að þetta kunni að vera 12 þús. á ári á mann miðað við þær upplýsingar fjármálaráðherra að heildarfjöldi sem nýtur þess arna hafi verið 8.834 á árinu 2002. Ef maður er enn þá grófari getur maður sagt að starfsævi sjómanns, sem leggur sjómennskuna fyrir sig, kunni að vera um 25 ár, styttri en annarra vegna þess hvað þetta starf er erfitt og hvað þarf til að sinna því, og ef svo er kynnu það að vera um 300 þús. kr. sem vantar í lífeyrissjóðinn fyrir hvern sjómann á þessum 25 árum.

Ég held að þetta dæmi sýni ágætlega hvað sjómannaafslátturinn er vondur liður í almennum kjörum sjómanna og sé enn eitt dæmið um þörfina á því að leggja hann niður.

Fjórða spurningin sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra á sínum tíma — ég spurði hve margir fengju þetta og hvernig vinnudagar hefðu skipst á milli ýmissa greina, en eins og við vitum eru beitningamenn í landi með þetta og líka t.d. menn á farskipum, í strandsiglingum, ferjum og sanddæluskipum. Síðan spurði ég um fjárhæð afsláttar eftir flokkum og loks spurði ég hvernig afslátturinn á þessum tíma skiptist eftir einstökum atvinnufyrirtækjum. Þetta var skrifleg spurning og skriflegt svar og því er rétt að nota tækifærið, þar sem hæstv. fjármálaráðherra mun vera einhvers staðar í húsinu, og finna að því við hann að hann skuli ekki hafa getað svarað því með öðru en þessu hér, með leyfi forseta:

„Ekki er unnt að skipta sjómannaafslættinum eftir einstökum atvinnufyrirtækjum.“

Nú kann þetta að hafa verið mikið mál á þeim tíma sem hér er spurt um en við eigum fullkominn rétt á því að fá þessum ríkisstyrk skipt eftir einstökum atvinnufyrirtækjum. Hann er veittur atvinnufyrirtækjunum, hann er ekki veittur sjómönnum. Þessi afsláttur er ekki einhver ölmusa til sjómanna, heldur einmitt öfugt, þetta er styrkur til útgerðarinnar í landinu sem hún á að kannast við. Í sama mund og hún er að berjast gegn ríkisstyrkjum í samkeppnislöndunum á hún líka að kannast við þennan ríkisstyrk og takast á við það að koma honum inn í sínar eigin launagreiðslur, þar á meðal greiðslurnar til Lífeyrissjóðs sjómanna.