131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:51]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mönnum hættir dálítið til þegar verið er að ræða um sjómenn að ræða um þann hóp sem einan og sér án tillits til hvernig hann skiptist. Að tala um að á annan áratug hafi ekki tekist samningar milli sjómanna og útgerðarmanna er náttúrlega ekki rétt. Það er sjómannastétt sem heitir farmenn. Farmenn á varðskipum, hafrannsóknaskipum, sanddæluskipum og kaupskipaflotanum hafa gert kjarasamninga. Við erum hér að einangra málið við fiskimenn. Það er rétt að halda því til haga og í sjálfu sér óþarft að deila um það. Hv. þm. Mörður Árnason er ekki sá eini sem talar eins og að öll sjómannastéttin hafi ekki gert kjarasamninga á annan áratug.

Í annan stað vildi ég segja að það að ætla að skipta sjómannaafslættinum upp og halda því fram að hann sé ekki til sjómannanna sjálfra heldur sé þetta styrkur til útgerðarinnar er náttúrlega rangt. Sjómannaafslátturinn byggist á því hversu lengi viðkomandi sjómaður hefur verið skráður til sjós. Það er á nafn viðkomandi sjómanns sem sjómannaafslátturinn birtist í formi skattafsláttar.

Ég get ekki séð fyrir mér að hægt sé að blanda saman einhverjum iðgjöldum í Lífeyrissjóði sjómanna annars vegar og tengja þau við sjómannaafsláttinn, enda þekkist það hvergi. Það er líka rétt að taka fram að sjómannaafslátturinn er ekkert séríslenskt fyrirbrigði. Hann er alls staðar á Norðurlöndunum og í öðrum löndum Evrópu þekkist hann líka.

Hér hefur hv. þm. Mörður Árnason farið yfir upphæðir og nefnt tölur máli sínu stuðnings. Ég efa þær ekki eða þau svör sem hann vitnar í að hæstv. fjármálaráðherra hafi veitt honum en ég held að það væri afar vont mál að ætla að fara í þessar hrókeringar með sjómannaafsláttinn.