131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:56]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Það eru nokkur orð bara í tengslum við frumvarpið sem má telja nokkurt tímamótafrumvarp miðað við allar þær umræður sem gegnum tíðina hafa farið hér fram oft og iðulega og lengi um málefni Lífeyrissjóðs sjómanna. Hér er nú komið frumvarp þar sem lagt er til að sérlög um sjóðinn falli niður.

Að sjálfsögðu er ekki ástæða til að ríghalda í sérlög um þennan lífeyrissjóð ef engar sérástæður eða sérákvæði gera það nauðsynlegt að hafa að einhverju leyti sérstaklega búið um málefni sjóðsins í lögum. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að gerast dómari í því og treysti því að þeir sem þetta hafa undirbúið og skoðað hafi farið með fullnægjandi hætti í gegnum það.

Ég kemst samt ekki hjá því sögunnar og hefðarinnar vegna að minna á það í tengslum við þetta frumvarp að sá hlutur ríkisins sem ætlunin var að kæmi til sögunnar í tengslum við upptöku svonefndrar 60 ára lífeyristökureglu stendur alltaf út af, sá sem mikið var um rætt á sinni tíð. Það er sjálfsagt staðreynd að menn hafi fyrir nokkru gefist upp á því að halda ríkinu við efnið og reyna að sækja að fullu uppgjör á þeim samskiptum. Ég man þó eftir fylgiskjali með þingmáli fyrir ekkert ýkja mörgum árum þar sem þessi hlutur framreiknaður var af stærðargráðunni 1.200 millj. eða svo sem talið var að vantaði inn í sjóðinn vegna innleiðingar 60 ára reglunnar á sínum tíma og þess sem upp á vantaði að sjóðnum væri bætt það í tekjum sem svaraði þeim réttindum sem mynduðust á því tímabili sem reglan var við lýði og hafði áhrif á stöðu sjóðsins. Því var svo breytt eins og kunnugt er og í raun og veru heyktust menn á því að reyna að tryggja mönnum eiginlegan 60 ára lífeyristökurétt, eins og best sést á því að menn borga að öllu leyti fyrir það sjálfir í formi skertra réttinda ef þeir hefja töku lífeyris fyrr en hin almenna regla segir til um. Það er á mannamáli einfaldlega uppgjöf á því að tryggja þessari stétt þann möguleika að fara fyrr á eftirlaun en almennt gerist. Fyrir því eru áfram nákvæmlega sömu efnisrök og voru á sínum tíma vegna eðlis sjómannastarfsins og ýmislegs sem í því er fólgið. Mér hefur alltaf sárnað að þessi niðurstaða skyldi verða á þennan veg. Ég er enn þeirrar skoðunar og ekkert sem ég hef skoðað í gegnum tíðina í þessu máli hefur breytt því áliti mínu að þarna hafi ríkið ekki staðið við sinn hluta af samkomulaginu.

Það hafa svo sem verið gerðar ýmsar tilraunir til að koma í einhverjum mæli til móts við stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna. Til sjóðsins hafa runnið fjármunir þegar skipt hefur verið einhverjum sameiginlegum eignum sem orðið hafa til innan sjávarútvegsgeirans eins og við munum. (Gripið fram í: Gengismunasjóður.) Gengismunasjóður er nefndur hér og kunna kannski ekki allir í dag skil á honum. Eins var það þegar t.d. fyrirbærið síldarútvegsnefnd var gerð upp og seld, þá stóðum við sem þá vorum í sjávarútvegsnefnd fyrir því að tryggja að Lífeyrissjóður sjómanna fengi hluta þeirra verðmæta einfaldlega sem viðurkenningu á því að sjómenn lögðu sitt af mörkum til þeirrar verðmætasköpunar í gegnum tíðina.

Eitt tel ég að menn verði að fara vandlega yfir áður en þeir taka þá ákvörðun að fella endanlega úr gildi sérlög um sjóðinn, að þar með er slíkt tæki ekki í höndum manna lengur að um Lífeyrissjóð sjómanna geti að einhverju leyti gilt sérreglur. Ég hélt satt best að segja að það gæti ekki verið neitt sérstakt vandamál þó að áfram giltu sérstök lög um einhverja afmarkaða þætti sem vörðuðu málefni Lífeyrissjóðs sjómanna. Það mætti vel gera þá breytingu á núgildandi lögum að byrja á því að taka fram að um Lífeyrissjóð sjómanna skuli gilda lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum eftir því sem við á. Það kynni vel að mega fella að verulegu leyti úr gildi og einfalda mjög löggjöfina sem er í raun og veru alveg heildstæð löggjöf um lífeyrissjóð með því einfaldlega að láta hin almennu lög gilda en eftir sem áður gætu einhver afmörkuð sérákvæði staðið eftir. Ég sé ekki að það þyrfti að vera neitt sérstakt vandamál.

Ef menn telja hins vegar enga ástæðu til slíks ætla ég eða þeir sem ég tala fyrir að sjálfsögðu ekki að standa gegn því en þetta er hlutur sem mér hefði samt fundist ástæða til að menn færu rækilega yfir. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það verða ekki bæði tryggð með lögum einhver sérákvæði um sjóðinn en að hinu leytinu slík lög felld úr gildi og hin almenna löggjöf lífeyrissjóðanna látin alfarið gilda.

Ég ímynda mér að það gætu áfram átt eftir að reynast vissar séraðstæður sem menn kynnu að vilja geta brugðist við með sérstakri útfærslu á lífeyrisréttindum sjómanna að einhverju leyti. En kannski er engin ástæða til slíks lengur og ef til vill hægt að sjá fyrir öllu slíku sem kynni að koma upp í samþykktum sjóðsins á grundvelli hinnar almennu löggjafar.

Aðalerindi mitt við þessi tímamót, virðulegi forseti, var að minna á að þessi hlutur stendur alltaf þarna eftir. Ég er alveg viss um að ef sú ákvörðun verður tekin að fella endanlega úr gildi öll sérákvæði um lífeyrismálefni sjómanna eru endanlegar lyktir málsins að aldrei framar verða reistar kröfur um einhverjar sérstakar aðgerðir eða sérstaka þátttöku ríkisins í því að tryggja stéttinni lífeyrisréttindi sem full rök geta þó verið fyrir. Ég er ekki sérstakur talsmaður þeirra sjónarmiða að það geti ekki verið réttlætanlegt og verðskuldað að búa einhvern veginn að einhverju leyti sérstaklega að kjörum sjómannastéttarinnar á Íslandi, hvort sem það er með sjómannafrádrætti eða sérreglum um lífeyrismálefni.