131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:39]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það voru örfá atriði í ræðu þingmannsins sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi er þetta tekjuöflun sem áætlað er að geti numið 340 millj. kr. sem er í samræmi við tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins sem hér var lagt fram 1. október og menn eru nú að ljúka meðferð á í þinginu. Þessar tekjur eru ekkert sérstaklega merktar tilteknum málaflokkum frekar en almennar tekjur af áfengis- eða tóbaksgjaldi, þó með þeirri undantekningu að í Forvarnasjóð rennur tiltekið hlutfall af tóbaksgjaldi til að styrkja starfsemi sjóðsins. Geri ég ráð fyrir að svo verði áfram hvað þessa aukningu varðar.

Að því er hins vegar snýr að smygli og landabruggi sem hv. þingmanni varð tíðrætt um liggur náttúrlega í hlutarins eðli að við vitum ekki umfang slíkrar starfsemi. Ef við vissum það og hefðum tök á henni mundi úr henni draga, geri ég ráð fyrir.

Hitt er athyglisvert sem bæði hv. þingmaður og fleiri hafa vikið að og það er hlutfallið milli verðs á sterku áfengi og léttu víni. Það hefur dregið úr notkun á sterku áfengi en í víninu hefur aukningin verið mjög mikil. Ég held að þetta sé heppileg þróun og ég hef staðið gegn því að hækka áfengisgjaldið á léttum vínum núna í sex ár þótt ég hafi talið óhjákvæmilegt að halda áfram að afla ríkissjóði tekna með því að hækka gjaldið á sterka víninu og tóbakinu. Ég vek athygli á því að 7% hækkun þessara gjalda þýðir minni hækkun í útsöluverðinu og ég er viss um að það eru ýmsir í þessum sal sem gætu hugsað sér að útsöluverðið hækkaði um 7% eða jafnvel meira. Þetta er staðan, virðulegi forseti, hvað varðar hlutfallið milli sterkra og léttra vína.