131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:41]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra í sjálfu sér fyrir að skýra þó þessa þætti, að þessi tekjuöflun ríkissjóðs sé ekki ætluð til þessara málaflokka eða einhverra annarra. Ég hvet ráðherrann til að beita sér fyrir því að hluti af þessari skattlagningu, þessari tekjuöflun ríkissjóðs, renni til þessara málaflokka og verði til að mæta þeim bráða vanda sem uppi er í málefnum meðferðarstöðva á Íslandi. Gríðarlegur fjöldi ungmenna streymir nú í meðferðarstöðvarnar og hefur alltaf aukist ár frá ári. Ég nefni ungmennin sérstaklega af því að það virðist ríða yfir mikill faraldur á neyslu ólöglegra fíkniefna ef við skilgreinum áfengi sem löglegt fíkniefni en önnur eiturlyf eins og heróín, kókaín, hass og e-töflur sem ólögleg fíkniefni.

Ég held að menn þurfi að taka verulega á þarna til að ná einhverjum viðunandi árangri. Verði þessi skattahækkun að veruleika einhvern tíma í nótt væri ágætt að sjá í framhaldinu að stjórnvöld létu meira af hendi rakna til þess.

Hæstv. ráðherra gat um það að við einmitt þekktum ekki til umfangs neyslu á landabruggi og smygluðum spíra og smygluðu sterku víni. Það er mikið rétt. Því síður höfum við þá nokkra einustu vitneskju um hvort raunverulega hafi dregið verulega úr neyslu á sterku víni þótt tölurnar frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins segi það. Þá höfum við alls enga hugmynd um það hver áhrifin af slíkri gjaldahækkun á sterk vín séu á tölu, neyslu og umfang á smygli og landabruggi í framhaldi af þessu. (Gripið fram í: En í Hreppunum?) Það er lítið drukkið af því í Hreppunum orðið. (Gripið fram í: Það er af sem áður var.) Það er af sem áður var.

Ég vil að lokum skora á hæstv. ráðherra, af því að hann nefnir þetta vandamál sérstaklega, að beita sér fyrir því að úttekt verði gerð á þessu og að menn beri þá rauntölur saman en ekki ímyndaðar tölur frá ÁTVR.