131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:16]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hann talaði um að þjóðin væri dregin á asnaeyrunum. Ég vil upplýsa það, ef hv. þingmaður veit það ekki, að hann sem formaður Samfylkingarinnar getur kannski dregið þingflokk Samfylkingarinnar á þeim eyrum en þjóðin er engin asni og hv. þingmaður dregur ekki aðra á þeim eyrum nema asna.

Það hlýtur að vera aumt að vera í þingliði Samfylkingarinnar. Hv. þingmenn hafa staðið hér fyrir kosningar og lofað skattalækkunum og hér standa menn og horfa fram á mestu skattalækkanir í Íslandssögunni. Búið er að lögfesta erfðafjárskattinn, eignarskattinn, hátekjuskattinn og tekjuskattinn. Þá segja þessir herramenn: Já, við viljum lækka matarskattinn. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þessir aðilar sögðu fyrir kosningar þegar þeir voru spurðir: Viljið þið virðisaukaskatt á matvæli? Nei. Þeir sögðu nei. Það var kosningaloforðið. Þetta kom fram og er opinbert. Þar síðast þegar við vorum í ríkisstjórn með einu af flokksbroti Samfylkingarinnar, Alþýðuflokknum, kom upp hugmynd um að lækka matarskattinn. Hvað gerðu hv. þingmenn í Alþýðuflokknum þá? Þeir hlupu út úr ríkisstjórninni, sögðu að það væri hnífsstunga í bakið að hrófla við þeim skatti.

Nú standa þessir hv. þingmenn upp og æmta og skræmta og tala niður til þjóðarinnar vegna þess að þeir horfa upp á mestu skattalækkanir Íslandssögunnar og vita ekkert hvað þeir eiga að gera í því.