131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:25]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort orðið „borgarstjórnartittur“ er til í orðabók hæstv. forseta, þá mundi ég ef til vill freistast til þess að nota það en sökum ókunnugleika míns ætla ég ekki að gera það.

(Forseti (HBl): Það yrði þá með ypsíloni.)

Nú ætla ég ekki að deila um stafsetningu við hæstv. forseta, a.m.k. ekki á þessu tiltekna orði, en mig langar að beina sjónum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að þeirri biblíu sem hann leggur meiri trúnað á en öll önnur guðfræðirit í samanlagðri mannkynssögunni og það er Morgunblaðið. Morgunblaðið leggur fram ákveðna greiningu þann 8. apríl 2003 á tillögum stjórnmálaflokkanna um aðgerðir í skattamálum: Sjálfstæðisflokkurinn, virðisaukaskattur. Lægra þrepið verði lækkað um helming, svo sem af mat. Samfylkingin, virðisaukaskattur af matvælum og öðrum matvörum lækki úr 14% í 7%. Það er helmingur.

Ég veit því ekki hvaðan hv. þingmaður hefur þessar upplýsingar sínar en hann má auðvitað lifa vel og lengi og dafna og þroskast með þeim. En við sem trúum Morgunblaðinu vitum hvað er rétt og hvað er rangt í þessum efnum.

Hv. þm. er líka borgarfulltrúi eins og reyndar fleiri í þessum sal. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt ríka áherslu á að beita sér fyrir aðgerðum sem geta eflt ferðaþjónustu, bæði í borginni og á landinu öllu. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á að efla ferðaþjónustuna þannig að hún verði samkeppnishæfari atvinnugrein og Ísland þar með samkeppnishæfara á hinum alþjóðlega ferðamarkaði. En fram kom í efnahags- og viðskiptanefnd áðan, hjá fulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar, að Íslendingar ættu heimsmet í áfengisgjöldum og að sú gjaldastefna hefði mjög neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna.

Það er því alveg sama, herra forseti, hvernig maður lítur á þetta, hvort sem maður lítur á þetta í gegnum gleraugu skattborgarans eða í gegnum gleraugu borgarfulltrúans, aðgerðin er á heildina tekið heldur neikvæð.