131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:26]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einhvern veginn þannig að þegar rætt er um skatta og gjöld kemur alltaf sami maðurinn upp í pontu á hinu háa Alþingi og býsnast yfir mér og fleiri hv. þingmönnum um að við stöndum ekki í ístaðinu varðandi skattstefnuna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerir það og ég er farinn að hafa áhyggjur af því að hann sé með mig og fleiri hv. þingmenn á heilanum.

Nú sakar hann okkur um að vera að hækka gjöld og að við verðum að átta okkur á því að kjósendur séu ekki fífl, þeir sjái í gegnum þetta allt saman. En bíddu, hvað vorum við að gera fyrir nokkrum dögum? Við vorum nefnilega að styðja frumvarp sem fól í sér mestu skattalækkanir sögunnar, ekki bara hvað varðar tekjuskatt heldur líka eignarskatt o.s.frv. Skattalækkanir sem hv. þingmaður og flokkur hans lofuðu m.a. fyrir síðustu kosningar. Þegar hann fær svo loksins tækifæri til að styðja slíkar kjarabætur fyrir fólkið í landinu sér maður ekki í annað en iljarnar á honum, hann hleypur á undan í flótta og treystir sér ekki til þess að styðja slík framfaramál.

Það var dálítið skrýtið að hlusta á ræðu hv. þingmanns þar sem hann skammar mig og fleiri þingmenn fyrir skattahækkanir. Þessi 1. þm. Reykv. n., formaður Samfylkingarinnar, formaður flokksins sem hækkar álögur á Reykvíkinga með skattahækkunum, útsvarshækkunum á mig og fleiri Reykvíkinga, hækkar fasteignaskattinn í borginni og hækkar leikskólagjöld á ungt barnafólk um allt að 42%. En það heyrist hvorki hósti né stuna í þessari liðleskju þegar kemur að þeim skattahækkunum sem hans ágætu félagar standa fyrir hér í borg.