131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:41]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem hafa setið í þingsal og hlýtt á umræðuna sem hefur farið fram eru kannski dálítið hugsi yfir því sem hér hefur verið sagt. Hér er mestu skattalækkunum sögunnar lýst yfir, hér er óbreytt verðlag, hér eru slíkar skattalækkanir að annað eins þekkist ekki, o.s.frv. Væntanlega fylgir persónuafsláttur ekki verðlagsþróun heldur skattahækkun, þó það hafi ekki verið nefnt sérstaklega í umræðunni.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að honum var eins og fleirum hér í kvöld tíðrætt um skattabyltinguna, skattalækkunarbyltinguna og mestu skattalækkun sögunnar. Ég gerði kannski ekki mikið annað en að líta á fjárlagafrumvarpið, þ.e. tekjuöflun ríkissjóðs, en þar kemur fram, eða í fjárlagafrumvörpum 2004 og 2005, að breytingin þar á milli, að samneyslan sé að aukast um 7–8%. (EOK: 1,7%.)

Ef það er þetta sem er verið að ræða um, þá spyr ég hvaðan tekjurnar komi. Aukningin er umfram hagvaxtarspár, tekjuaukning ríkissjóðs er umfram hagvaxtarspár (Gripið fram í.) og þá spyr ég: Hvaðan koma tekjurnar úr því að við erum að tala hér um mestu skattalækkunarbyltingu sögunnar? Þetta er mikilvægt að upplýsa í umræðunni svo við hinir venjulegu þingmenn fáum að einhverju leyti skilið það sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið að segja.