131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:45]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði verið gaman að geta fagnað þeim skattalækkunum sem um hefur verið talað. Vissulega hefðum við fagnað þeim ef um raunverulegar skattalækkanir væri að ræða.

En vegna þess sem fram kom hjá hv. þingmanni þá liggur fyrir að spár liggja fyrir um að veltuaukningin verði 5%. Ríkið tekur til sín tekjur upp á 7–8% umfram það sem það gerði í fyrra. Þess vegna stendur enn eftir spurningin: Hvar birtast heildaráhrif skattalækkananna? Það er það sem við erum að reyna að fá fram. Þess vegna benti hv. þm. Össur Skarphéðinsson á það áðan að þessar hækkanir og álögur nema um 5 milljörðum kr. á næsta ári á meðan lækkanirnar eru um 4 milljarða kr. Nettóniðurstaðan er hækkanir og um það erum við að tala.

Við auglýsum eftir skýringum, ekki bara innihaldslausum slagorðum um byltingarkenndar skattalækkanir. Þau hafa í sjálfu sér ekkert með umræðuna að gera. Við köllum eftir skýringum á þessum veruleika. Menn geta ekki talið það skattalækkanir að verð á léttum vínum hafi ekki hækkað í tiltekinn tíma. Það er veruleikinn, virðulegi forseti.