131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:53]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að við hv. þingmaður erum báðir áhugamenn um að bæta áætlanagerð í ríkiskerfinu og ég get að hluta til tekið undir að betur megi gera í þeim efnum. Ég held t.d. að það væri mjög mikilvægt ef stofnunum ríkisins sem gera rekstraráætlanir sínar í upphafi árs — það er bara þannig — verði gert að endurskoða rekstraráætlanirnar síðari hluta ársins, t.d. í septembermánuði þannig að fjárlaganefndin geti haft þær til hliðsjónar í sínum störfum. Með þeim hætti tel ég að við getum bætt enn frekar úr í þessum málum þó svo við vitum að þokast hefur vel áfram í þessu síðustu árin. Áætlanagerð hjá ríkinu og ríkisstofnunum hefur lagast mjög mikið á síðustu árum og er það vel. En í þessu eins og öðru má alltaf gera betur og ég held að þetta sem ég nefni hér yrði mjög til bóta fyrir alla aðila málsins sem um þurfa að fjalla.