131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:14]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur hv. þm. Jón Bjarnason flutt langa og lærða ræðu. Oft var þó ekki hægt að greina hvort hann væri að ræða fjárlögin í ár eða fjáraukalögin. Ég hugsa að svo sé komið fyrir fleirum, að þeir ruglist svolítið í málflutningi hv. þingmanns.

En ég vil biðja hv. þingmann að koma með dæmi þegar hann segir að ríkið hafi hvatt sveitarfélögin til að selja eigur sínar. Ég kannast ekki við það. Ég bið hann því um að koma með dæmi um það. Getur hann sagt okkur hvernig þessu er háttað? Þetta er nokkuð sem ég kannast ekki við.

Hv. þingmaður segir jafnframt óvönduð vinna fari fram í fjárlaganefnd. Ég vil meina að þar hafi verið mjög vönduð vinna. Vinnan hefur þá farið fram án þess að hann hafi verið með meðvitund, þegar við unnum þar aðrir þingmenn. Það er mjög einkennilegt að heyra hvernig hv. þm. Jón Bjarnason talar um kollega sína. Hann talar einnig gjarnan um að við rekum lélegt velferðarkerfi. Hins vegar er það þannig, hv. þingmaður, að við rekum eitt öflugasta velferðarkerfi í heimi.