131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:46]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar til að leggja orð í belg í umræðuna þó að margt hafi komið fram og óþarfi að endurtaka mikið af þeim upplýsingum sem dregnar hafa verið fram.

Samt er rétt að vekja sérstaka athygli á því að til þess að fjárlagagerðin geti orðið markvissari en hún hefur verið á undanförnum árum þurfa að liggja fyrir upplýsingar í fjárlaganefnd. Um það held ég að allir fjárlaganefndarmenn séu sammála, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það er algjörlega nauðsynlegt að mínu viti til þess að bæta starfið og gera það auðveldara og að menn nái markvissar utan um þann vanda sem hefur verið ræddur mest í dag, sem er framúrkeyrsla ýmissa stofnana miðað við fjárlög. Fjáraukalögin eru stórt tilefni þar sem verið er að taka á vanda stofnana þar sem fjárlögin hafa ekki dugað til rekstrar og því mikilvægt að fyrir liggi samantekt um fjárhagsstöðu stofnana í upphafi þings.

Ég þykist vita að allir fjárlaganefndarmenn, formaður og varaformaður fjárlaganefndar þar með taldir, hafi mikinn áhuga á því að slík plögg liggi fyrir við upphaf þings þegar fjárlagafrumvarp er kynnt og að búið væri að leggja mat á stöðu reksturs stofnana fram til þess tíma og einnig spá um hvernig staðan gæti hugsanlega verið um áramót. Þær upplýsingar mundu auðvelda okkur fjárlagavinnuna og til að taka betur á ýmsu sem við gerum í fjáraukalögunum og væntanlega verða til þess að þegar kæmi að því að vinna fjárlögin fyrir næsta ár mundi það vonandi breytast í kjölfarið að jafnmikið þyrfti að koma í fjáraukalögin eins og reyndin hefur verið á undanförnum árum, lagfæringar á stöðu ýmissa stofnana á vegum ríkisins vegna þess að menn hefðu betri upplýsingar í höndunum og tækju þá e.t.v. stærri upphæðir beint í fjárlögin sem mundi draga úr því að fjáraukalögin þyrftu að koma til með þeim hætti sem gert er í dag.

Við eigum að reyna að sjá sem mest fyrir í fjárlagagerðinni og taka á því í fjárlögunum á hverju ári. Það sem vandséð er hver staðan verði á árinu eða aðrar utanaðkomandi breytur sem menn ráða ekki við, eins og hvað gerist í kjarasamningum og viðskiptakjörum þjóðarinnar o.s.frv. sem erfitt getur verið að sjá fyrir, alla vega hefur það sýnt sig á undanförnum árum að það geta orðið sveiflur í því sem menn sjá ekki fyrir, eins og olíuverðsdæmin sanna og verðbreytingar á afurðum okkar eins og t.d. sjávarafurðum. Slíkt er eðlilegt að menn þurfi að takast á við í fjáraukalagafrumvarpi. En ég held að mjög æskilegt væri að reyna að fækka þeim tölum og þeim ákvörðunum sem við þurfum að setja í fjáraukalögin. Ég held að slíkur listi sem lægi fyrir í upphafi starfsins í fjárlaganefnd væri mjög nauðsynlegt tæki í þá veru að gera fjárlögin markvissari að þessu leyti.

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu fjárlaganna, þegar við ræddum þau við 3. umr. einhvern tíma á fyrstu dögum desembermánaðar á síðasta ári, sagði ég að ljóst væri að verulega fjármuni mundi vanta á ýmislegt varðandi það sem kæmi upp á þessu ári. Sumt væri fyrirsjáanlegt eins og varðandi vanda háskólanna, vanda framhaldsskólanna og vanda sveitarfélaganna. Ég gat sérstaklega um þetta í máli mínu í desember sl. að væri örugglega vanáætlað í fjárlögum ársins og svo kemur auðvitað í ljós að í fjáraukalögunum erum við m.a að fjalla um þessi atriði. Ég tel að vandinn hafi verið nokkuð fyrirsjáanlegur á síðasta ári þegar við afgreiddum fjárlögin.

Ég er hins vegar alveg sannfærður um að ef við hefðum haft upplýsingar nógu tímanlega varðandi vanda stofnananna hefði okkur gefist miklu meiri tími í fjárlaganefnd til þess að vinna málið betur og þar af leiðandi að draga e.t.v. úr því hvað þarf að fara yfir í fjárauka. Um það held ég að við sem störfum í fjárlaganefnd — og sá sem hér stendur hefur áheyrnaraðild þar og leggur til mála eins og hann telur tilefni til, þó hann sé ekki vanasti maður í fjárlaganefndinni. En ég tel rétt að horfa sérstaklega á þennan þátt og þess er réttilega getið í nefndaráliti 1. minni hluta, sem ég samþykki fyrir mitt leyti, að sérstaklega þurfi til þess að taka að slíkir listar liggi fyrir í upphafi þings svo að betur megi vinna að málunum.

Það er náttúrlega forkastanlegt að við skyldum hafa verið að — ja, hvað eigum við að segja — nauðga listanum út úr stofnunum í gær. Það held ég að gangi alls ekki inn í framtíðina og menn verða að taka sig verulega á í þeim efnum. Ég veit að formaður fjárlaganefndar hefur gert sitt til þess að reyna að fá listann fyrr til fjárlaganefndar og ekki við hann að sakast, en það er alveg greinilegt að við þurfum að breyta þessu í fjárlagavinnunni og gera kröfu um að slíkir listar séu unnir upp og liggi helst fyrir strax á fyrstu dögum þingsins þegar fjárlagavinnan hefst þannig að við sjáum betur við hvaða vanda er að fást og um hvaða stærðir gæti verið að ræða. Það getur ekki verið svo í ríkiskerfinu að ekki sé hægt að vinna málið betur.

Við erum að setja 450 millj. kr. núna til þess að taka á rekstrarvanda framhaldsskólanna. Ef ég man rétt er þetta ekkert ólíkt þeirri tölu sem menn veltust með í fyrrahaust, sem var á bilinu 300–400 millj. kr. Ég trúi því og treysti að formenn fjárlaganefndar muni í framtíðinni beita hörku í því að ná slíkum upplýsingum fram fyrr en raunin hefur verið.

Það var ágætlega farið yfir ýmsa framúrkeyrslu á ýmsum stofnunum af hv. þm. Jóni Gunnarssyni og ég veit ekki hvort á nokkuð að vera að endurtaka það. Það er fjöldamargt annað sem hægt er að ræða í tengslum við fjárlögin en að endurtaka tölur fram og til baka varðandi þetta. Ég held að ég láti þetta nægja um það sem við þurfum að taka betur á varðandi stofnanir og upplýsingar til þess að ná betri árangri við að fjárlögin séu nær raunveruleikanum en við höfum upplifað á undanförnum árum með því að þurfa að bæta tiltölulega háum upphæðum inn á mörg svið fjármálanna í fjáraukanum.

Undanfarna daga hefur verið rætt talsvert mikið um skattamálin og vikið að því almennt í stöðunni varðandi það hvenær ríkið tekur til sín tekjur og hvenær ríkið segist vera að skila tekjum til launþeganna, til borgara. Því hefur verið haldið fram að miðað við skattstefnuna sem nú er í gildi sé verið að skila miklum fjármunum til baka þegar á næsta ári, áætlað rúmir 4 milljarðar. Það er líka algjörlega rétt sem hefur verið dregið fram og sá sem hér stendur benti réttilega á í fyrrahaust við umræðu fjárlaganna að ríkið tók til sín verulegar tekjur með ýmsum álögum sem þá voru settar til þess að — ég held að ég hafi orðað það þannig sl. haust að ríkisstjórnin væri í raun og veru með inntöku á nýjum álögum í fjárlögum ársins sem nú er að líða að undirbyggja það sem hún hygðist aðhafast í breytingum á skattalögum á næstkomandi ári. Verið var að breyta ýmsum álögum í fjárlögunum á haustinu 2003 fyrir þetta ár, m.a. bensíngjaldi, þungaskatti, frádrætti varðandi húsnæðislánin og gjöldum sem voru lögð á einstaklinga þegar þeir nýttu sér ákveðna þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu.

Það er því rétt sem hefur verið dregið fram í umræðunni að við afgreiðslu síðustu fjárlaga fyrir árið 2004 var verið að undirbúa að taka inn tekjur sem slaga í það sem nú er fyrirhugað að láta út. Það var því komin inneign áður en sú boðaða skattstefna sem nú liggur í þingi og er í skoðun í efnahags- og viðskiptanefnd lá fyrir.

Í gær ræddum við ýmsa tekjuliði ríkisstjórnarinnar varðandi hækkun á ýmsum gjöldum og varð nokkur umræða um hækkun á áfengi og tóbaki. Menn greindi á um hvort verið væri að ná einhverjum tekjum með því að auka álögur á sterkt áfengi og tóbak. Aðalrökin í máli sjálfstæðismanna í pontu voru, ég held að hv. þm. Gunnar Birgisson hafi fært rök fyrir því, að af því að álögur á létt vín og bjór hefðu ekki verið auknar á undanförnum árum væri í raun og veru um skattalækkun að ræða en ekki skattahækkun eða tekjuauka, heldur hefði ríkið tapað tekjum á því að leggja ekki álögur á rauðvín og bjór.

Nú vill svo til, hæstv. forseti, að það þykir víst orðið nokkuð vísindalega sannað að rauðvín sé heilsubætandi, að hóflega drukkið rauðvín, ættum við ekki að orða það svo, sé heilsubætandi. Hvað skyldi nú vera hóflega drukkið rauðvín, er það hálfur lítri á dag, hálfflaska? Eigum við að segja að fólk hafi gott af því að fá sér eitt, tvö glös af rauðvíni seinni part dags og fyrir svefninn, að það sé heilsubætandi? Ég mundi alla vega telja, miðað við það sem læknavísindin hafa verið að segja, að það sé betra fyrir fullorðið fólk að drekka hálfflösku af rauðvíni en einn lítra af kók.

Hvers vegna dreg ég þetta fram í umræðuna? Jú, því hefur ákaft verið haldið fram, sérstaklega af sumum sjálfstæðismönnum, ég minni á orð hv. þm. Péturs H. Blöndals að ef menn lækkuðu skatta, sérstaklega á atvinnulífið þýddi það tekjuaukningu, það kæmu meiri peningar í kassann. (Gripið fram í: Fullur kassi.) Þess vegna skildi ég ekki þá röksemdafærslu sem hér fór fram í gær vegna þess að hún var alveg öfug við það sem áður hafði verið haldið fram af sjálfstæðismönnum að tekjurnar mundu aukast í kassann ef menn lækkuðu álögur, en það var verið að færa fyrir því rök að ríkið væri að tapa á því að hækka þessar álögur vegna þess að það hefði ekki fylgt verðlaginu varðandi léttvínið og bjórinn.

Þá spyr maður auðvitað miðað við rök sjálfstæðismanna í allri umræðunni um að lækkandi skattar auki umsvif: Skyldu ekki lækkuð gjöld á rauðvín verða til þess að meira verði keypt af rauðvíni? Og af því að þetta er í verslun ríkisins fengi þá ekki ríkið meiri peninga ef meira yrði selt af rauðvíni? Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér fannst sú röksemdafærsla sem fram fór í gærkvöldi afar furðuleg og fékk ekki nokkurn botn í það að aukin sala á rauðvíni yki ekki tekjur ríkisins.

Þetta vildi ég segja um þá merkilegu umræðu sem fram fór í gær um að hækkun á áfengisgjaldi yki ekki tekjur ríkisins heldur jafnvel að lækkaði þær. Ég held að það sé á hinn veginn að ríkið fái tekjur af hækkun á sterku víni og tóbaki og auk þess fái það meiri tekjur af meiri sölu á léttvínum, þó að ekki hafi verið hækkuð gjöld á þau. Ég held líka miðað við upplýsingar lækna að það sé heilsusamlegra að drekka meira af rauðvíni og minnka kókdrykkjuna hjá þeim sem fullorðnir eru, svo farið sé í gegnum það örstutt.

Að öðru leyti ætla ég ekki að taka skattaumræðu að þessu sinni en geyma mér það til 3. umr. fjárlaga en ég held að það sé orðið mikið efni í það að ræða skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar fram og til baka og hvernig rök hafa verið færð fyrir þeim af ýmsum hér á undanförnum dögum og vikum. Ég er ekki viss um að þar haldi allt vatni sem sagt hefur verið.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig til að víkja að því að við umræðuna síðastliðið haust minntist ég á málefni líknarfélagsins Byrgisins sem hefur séð um að taka til vistunar þá sem halloka hafa farið í lífinu hvað varðar fíkniefni og annað slíkt og hafa þurft á aðstoð að halda. Ég hef margoft komið að vanda þeirrar stofnunar sem ég tel að sé hin þarfasta og við hv. þingmenn höfum oft rætt þann vanda hér. Í seinni tíð hefur það verið kallaður fortíðarvandi Byrgisins sem við höfum verið að ræða, þ.e. sá viðskilnaður sem varð á Miðnesheiði en líknarfélagið Byrgið hafði fjárfest þar í endurbyggingu húsnæðis en þurfti að hverfa frá því og færa starfsemi sína annað að ósk utanríkisráðuneytisins sérstaklega. Þar varð eftir ákveðin skuldbinding og við ræddum það mál í fyrra og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti því þá yfir að ef það væri svo að ekki væri samningur á milli Byrgisins og ríkisins um frágang málsins væri sjálfsagt að taka það til skoðunar. Ég vil leyfa mér að vitna í niðurlagsorð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í andsvari en hann sagði, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Ég hélt að þetta væri mjög skýrt. Ég sagði áðan að eins og staðan væri skyldi ég vera reiðubúinn til að fara í gegnum þessi mál, fara þá með þessu ágæta vistheimili, ræða þetta við félmrn., gá hvort það væri einhver flötur á því að við gætum náð saman um það. Ekki skal standa á því“ — sagði varaformaður fjárlaganefndar. — „Það eru engin önnur loforð sem ég hef gefið. Reiðubúinn til að gera það.“

Sá sem hér stendur sagði af þessi tilefni, virðulegi forseti:

„Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Þau fullvissa mig um að þegar hv. þm. áttaði sig á því að raunverulegur samningur var ekki til um þetta mál væri hann tilbúinn til að vinna að því að skoða það og sjá hvaða lausn megi finna út úr því máli.“

Og ég þakkaði fyrir hin skýru svör varaformanns fjárlaganefndar.

Af þessu hefði ég getað dregið þá ályktun að jafnvel hér í fjáraukalögunum, t.d. undir félagsmálaráðuneyti þar sem m.a. er verið að bæta við fjárhag Stígamóta og ýmis önnur framlög, hefði verið einhver liður um að taka á þeim vanda Byrgisins sem kallaður hefur verið fortíðarvandi og staðið hefur út af. En því miður er ekki svo og ég verð að lýsa vonbrigðum með það miðað við það sem sagt var í þessum ræðustóli fyrir ári. Ég vonast til þess að áður en hin endanlegu fjárlög fyrir næsta ár verða afgreidd takist okkur e.t.v. að lagfæra eitthvað í þessum efnum og vísa þar í orð varaformanns fjárlaganefndar og orð fyrrverandi formanns fjárlaganefndar, Ólafs Arnar Haraldssonar sem þá var formaður fjárlaganefndar og hafði sérstaklega lofað að þessi mál skyldu verða tekin til lausnar. Ég mun fara vel yfir þá umræðu við 3. umr. fjárlaga, hvað þar var sagt og til hvers það átti að standa og lýsi vonbrigðum mínum í lok ræðu minnar með það að menn skyldu ekki reyna að leysa málið með þeim hætti sem hv. þm. og varaformaður fjárlaganefndar, Einar Oddur Kristjánsson, lýsti yfir í fyrra að hann skyldi beita sér fyrir, að þessi mál yrðu rædd sameiginlega við félagsmálaráðuneytið að því marki að reyna að finna lausn eða koma á samningi sem betur dygði.

Ég vænti þess að félagar mínir í fjárlaganefnd kannist við þá umræðu alla og ljái mér stuðning í því að ræða þessi mál við 3. umr. fjárlaga í von um að finna megi nokkra lausn á þessu vandamáli.