131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Málefni aldraðra.

85. mál
[16:42]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki efni þessa máls sem gerir það að verkum að ég tel mig knúinn til að koma í andsvar. Þar ræður fremur hitt að ég fann ekki upplýsingar sem ég tel þurfa þegar ég skoðaði þau gögn sem fylgja þessu máli. Hér er um það að ræða að hækka á nefskatt um 162 kr., þ.e. úr 5.576 kr. í 5.738 kr., sem leggst á flesta skattgreiðendur hér á Íslandi.

Ég vildi spyrja hv. þingmann: Hve mikil er tekjuaukningin fyrir ríkissjóð? Ég fann það ekki í gögnunum. Það má vel vera að þessar tölur leynist einhvers staðar á milli en mér þætti vænt um það ef hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Jónína Bjartmarz, gæti upplýst við þessa umræðu hve mikla tekjuaukningu það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð að þessi hækkun nái fram að ganga.