131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Málefni aldraðra.

85. mál
[16:45]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli formanns hv. heilbrigðis- og trygginganefndar, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, skrifuðum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni undir nefndarálitið með fyrirvara. En það kom ekki fram í máli hv. þingmanns í hverju fyrirvarar okkar eru fólgnir. Við gerum fyrirvara í tveimur liðum og erum með breytingartillögu við frumvarpið. Eins og fram kom í andsvörum eru ákveðnir skattgreiðendur undanþegnir greiðslu nefskattsins sem verið er að fjalla um, sem er gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra, ellilífeyrisþegar yfir sjötugt og þeir sem ekki eru orðnir 16 ára gamlir greiða sem sagt ekki þann skatt. Við teljum og gerum breytingartillögu um að örorkulífeyrisþegar eigi ekkert frekar en ellilífeyrisþegar að greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra ef þeir eru einvörðungu með bætur almannatrygginga eða með lægri tekjustofn. Ég minni á að lífeyrisþegar sem eru eingöngu með bætur almannatrygginga greiða sem nemur tveimur mánaðargreiðslum í skatt á ári. Þetta fólk er með tekjur undir framfærslumörkum á mánuði og í þeim hópi eru t.d. þeir sem eru á atvinnuleysisbótum. Verið er að rukka þá um 5.738 kr. í nefskatt sem er verulega þung byrði fyrir þá sem hafa þetta lágar tekjur.

Við erum því með breytingartillögu á þskj. 480, 85. mál, sem lýtur að þeim hópi. Hún hljóðar svo:

„Við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:

Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn sem nemur fjárhæðum grunnlífeyris, tekjutryggingar og tekjutryggingarauka almannatrygginga árið 2004 eða lægri tekjum. Tekjuviðmiðun þessi skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á örorkulífeyri, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.“

Síðan kemur viðbótarsetningin sem vitnað var í áðan: „Skattstjóri skal fella gjald þetta niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.“

Fyrirvari okkar lýtur einnig að því hversu mikið af tekjum sjóðsins fer í rekstur. Við teljum að meiri hluti hans eigi að fara til uppbyggingar öldrunarstofnana. Ég minni á að þegar sjóðurinn var settur á laggirnar var það í samstarfi við verkalýðsfélögin. Samkomulagið var á þeim tíma í þá veru að allir fjármunir sjóðsins ættu að fara í uppbyggingu, en 45% af tekjum sjóðsins hafa farið í uppbyggingu, annað hefur farið í rekstur.

Ég var á fundi um síðustu helgi með fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara þar sem þeir gagnrýndu þessi vinnubrögð harðlega. Þar kom fram að um 400 manns bíða í mjög brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. Þörfin er því mjög mikil fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma. Þó að uppbyggingin hafi verið nokkur er vandinn engu að síður mjög stór.

Vegna þeirrar breytingartillögu sem við, hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir, leggjum fram, ásamt þeirri sem hér stendur, minni ég á að verið er að rukka fatlaða, þroskahefta og fólk á örorkulífeyrisgreiðslum um nefskattinn sem aldrei hefur greitt í lífeyrissjóð, fólk sem er undir framfærslumörkum eins og ég nefndi áðan. Ég minni á það vegna umræðunnar í gær um auknar skattálögur ríkisstjórnarinnar að verið er að hækka skatta á þetta fólk.

Einnig hefur komið fram í umræðunni fyrr í dag um fjáraukalög að verið er að sækja meiri skatta til almennings með þeim frumvörpum sem hafa verið til umræðu í gær og í dag en verið er að veita í skattalækkanir á næsta ári. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig þetta bitnar á ýmsum hópum í samfélaginu. Hvaða skattbyrði er verið að færa á milli hópanna með þeim breytingum sem verið er að fjalla um þessa dagana.

Ég minni á að það eru ekki háar upphæðir sem fólkið hefur til framfærslu sem við erum að tala um að eigi að sleppa við að greiða nefskattinn. Verið er að tala um grunnlífeyrinn sem er ekki nema rúmlega 21 þús. kr., tekjutryggingu sem er rúmar 42 þús. kr. og tekjutryggingarauka. Þetta eru 85 þús. kr. sem fólkið er með í tekjur sem við leggjum til að sleppi við greiðslurnar. Eins og fram kom í umræðunni í gær er verið að leggja verulega auknar álögur á almenning. Auðvitað bitnar það að einhverju leyti á þeim hópum sem við teljum að eigi ekki að greiða nefskattinn, sem bitnar þyngst á þeim sem minnst hafa.

Það má nefna upptalninguna sem margoft var nefnd í gær um allar þær hækkanir sem eru að koma. Ég er ekki að segja að sá hópur sé mikill neytandi áfengis eða tóbaks, þó veit maður það náttúrlega ekki, en þar eru náttúrlega að koma auknar álögur. Það er bensíngjaldið, vaxtabæturnar eru lækkaðar, verið er að hækka komugjöldin á heilsugæsluna og ýmis önnur gjöld hafa verið að hækka undanfarið sem bitnar auðvitað að einhverju leyti á þessum hópi.

Virðulegi forseti. Ég kom aðallega upp til að gera grein fyrir þeim fyrirvörum sem við erum með við frumvarpið. Við erum með breytingartillögu sem ég trúi ekki öðru en stjórnarliðar samþykki því hún er mjög sanngjörn og mun ekki kosta ríkið mikið. Fólkið sem við leggjum til að sleppi við gjaldið er allt með svo lágar tekjur að það er í rauninni til skammar að leggja hátt í 6 þús. kr. nefskatt á ári á þann hóp sem er langt undir 100 þús. kr. í tekjum á mánuði og borgar skatta sem nemur tvennum mánaðarlaunum á ári.

Ég hvet stjórnarliða, sem virðist vera mjög umhugað um að lækka skatta, að horfa til sinna minnstu bræðra sem við leggjum til að lendi ekki í nefskattinum. Ég minni á það, virðulegi forseti, að við höfum lagt þetta til við svo til hverja umræðu þegar gjöldin í Framkvæmdasjóð aldraðra hafa komið til umræðu. Vissulega er þörf fyrir greiðslur úr sjóðnum í uppbyggingu hjúkrunarheimila, en þetta er ekki fólkið sem á að standa straum af þeim kostnaði. Það eru breiðari bök í samfélaginu.