131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:36]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að það ætti að hækka öll þau gjöld sem ríkisstjórninni hefur dottið í hug að leggja á. Flest þessara gjalda sem við erum að hækka og lækka hefur þessi ríkisstjórn ekki lagt á. Þau eru eldgömul þannig að þetta er rangt hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í: Þið eruð fórnarlömb.)

Ég hygg að persónuafslátturinn lauslega reiknaður sé um 40 milljarðar samtals. Hækkun á honum sem kemur skattgreiðendum til góða yfirgnæfir, hygg ég, öll þau gjöld sem við erum að hækka og hann er hækkaður í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga.

Ég vil enn einu sinni segja að ef einhver gjöld hækka ekki í verðbólgu, hversu lítil sem hún er — hún er ekki mikil. Það verður að viðurkennast. Hún er ekki mikil, 3,5% — þá er viðkomandi gjald að lækka að raungildi. Þetta vita náttúrlega allir sem þekkja eitthvað inn á verðtryggingu og verðlagsforsendur og verðbólgu og því um líkt, að þó að verðbólgan sé lítil þá sé samt um raunlækkun að ræða.

Skatttekjur ríkissjóðs hækka m.a. vegna veltuaukningar í þjóðfélaginu. Það er líka vegna þess að tekjur almennings hafa hækkað sem ég hef oft bent á að stjórnarandstöðunni finnist vera sérstakt vandamál. Ég bendi t.d. á að lækkun á skatti á hagnað fyrirtækja úr 50% niður í 18% jók tekjur ríkissjóðs stórlega af þeim skatti. Er það þá skattahækkun? Ónei, það er ekki skattahækkun að lækka prósentuna úr 50 niður í 18%. Nei, það er skattalækkun. En hún eykur tekjur ríkissjóðs engu að síður af þessum ákveðna skattstofni.