131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:38]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þegar ríkið eykur alltaf sinn hlut af því sem til skiptanna er þá eru það skattahækkanir alveg sama í hvaða búning menn reyna að klæða það.

Mér fannst reyndar lítið leggjast fyrir hv. þingmann eftir málflutning hans sem var að snúa þannig út úr því sem ég sagði að einhverjir aðrir vondir í ríkisstjórn hefðu lagt á þau gjöld sem þessi góða ríkisstjórn neyddist nú til að hækka, gjöld sem hefðu verið fyrir hendi og að ríkisstjórnin yrði að sjálfsögðu að hækka þau af því að einhverjir aðrir vondir í ríkisstjórn hefðu lagt þau á.

Mig langar bara að fara yfir tvö lítil gjöld sem ég tel að þessi ríkisstjórn sé nú að leggja á eða breyta. Umsýslugjald fasteigna var hér til og átti að falla niður samkvæmt lögum sem voru í gildi. Hér er komið fram frumvarp í þinginu um Fasteignaskrá ríkisins þar sem lagt er til að þetta gjald haldi áfram. Samkvæmt þeim skilgreiningum sem hv. þingmaður hefur farið mjög fyrir í þinginu þá hlýtur það að vera meðvituð ákvörðun um að halda skatti eða hækka skatt þannig að umsýslugjald fasteigna hlýtur þá að skrifast á þessa góðu ríkisstjórn sem nú er.

Annað sem hlýtur að skrifast á hana er breyting á vörugjaldi á bensíni og olíu. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi hækkun, þessi kerfisbreyting, muni skila um 350 milljónum til viðbótar í ríkissjóð. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur því tekið báðar þessar ákvarðanir. Það er hálfpartinn hlálegt að fylgjast með hv. þingmönnum stjórnarliðsins þegar þeir koma í þessa skattaumræðu og reyna að verja það sem verið er að gera því að allir eru þeir þó það skynugir að þeir átta sig alveg á því að ef við horfum til ársins 2005 þá er verið að flytja verulega skattbyrði af þeim sem mestu tekjurnar hafa en lítið verið að gera fyrir þá sem minna hafa.