131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:42]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að tala mína íslensku þannig að hún skiljist. Er það lögmál, hv. þm. Pétur Blöndal, (PHB: Get ekki svarað?) ef ríkissjóður hefur það gott ... Ég skal breyta því sem ég segi. Hv. þm. Pétur Blöndal heldur því fram í ræðustól að það þurfi að hækka öll gjöld sem ríkið hefur lagt á í takt við verðbólguna, að það sé bara nauðsynlegt. Af hverju var þá afnumin bein tenging á mörgum gjöldum sem var í lögum sem sagði að þau ættu að hækka með lánskjaravísitölu eða neysluvísitölu ... (PHB: Stjórnarskrárbreytingin 1995.) Vegna þess að menn vilja taka ákvörðun um hvort það eigi að hækka eða ekki hækka. (PHB: Stjórnarskrárbreytingin 1995.) Ef þetta eru rök, hv. þm. Pétur Blöndal, að það sé nauðsynlegt að fylgja verðbólgu þá hlýtur að vakna sú spurning af hverju ríkisstjórnin fylgir þá ekki þeirri veðbólgu sem er. Af hverju? Ef hún verður að halda sínum tekjum í takt við verðlag hvernig dettur henni þá í hug að hækka bara um 3,5%? Af hverju hækkar hún þá ekki um 7%? (Gripið fram í: Af því hún er að lækka.) Af því að það er meðvituð ákvörðun um það ... (Forseti hringir.)

(Forseti (GÁS): Forseti vill vekja athygli hv. þm. Péturs H. Blöndals á því að hann er næstur á mælendaskrá og biður hann að gefa hér frið. Hlýðir þingmaðurinn á mig?)

Þakka þér fyrir, virðulegi forseti. Það er sem sagt meðvituð ákvörðun hjá ríkisstjórnarflokkunum að það þurfi ekki að hækka þessi gjöld alveg í takt við verðlag þó að það sé sögð ástæðan fyrir þessum hækkunum.

Ég nefndi í upphafi máls míns stöðugleikann. Það er mikið talað um stöðugleikann og sérstaklega af hálfu ríkisstjórnarinnar. Er 7% verðbólga á tveimur árum til marks um mikinn stöðugleika? (Gripið fram í: Hjá R-lista væri það.)