131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:54]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið afar fróðlegt að hlýða á þá umræðu sem hér hefur farið fram og kannski sérstaklega málflutning þeirra frænda, hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Halldórs Blöndals. Umræðan hefur kannski fyrst og fremst snúist um það hvað raunverulega er að gerast í ríkisfjármálunum. Þeir hv. þingmenn sem ég nefndi til sögunnar hafa verið í hópi þeirra sem hafa barið sér á brjóst og talað um gríðarlegar skattalækkanir með mikilli hrifningu og lýst yfir gríðarlegri gleði og ánægju úr þessum ræðustól með það sem er að gerast.

Það er ekkert óeðlilegt við það, eins og hér hefur komið fram og hefur verið haldið fram í þessari umræðu, að hv. þingmenn fari vandlega yfir það sem hér er raunverulega á ferðinni. Hv. þingmenn hafa hver á fætur öðrum dregið fram að þær hækkanir sem ráðist var í í fyrra og núna í ár þýði í reynd að þær eru hærri en þær skattalækkanir sem nú eru boðaðar. Með öðrum orðum það er búið að fjármagna þessar skattalækkanir með öðrum hækkunum og það þýðir í reynd að þetta er aðeins tilfærsla á tekjum, verið er að færa tekjur frá einum hópi til annars. Það er verið að færa tekjur frá þeim sem minna mega sín til þeirra sem meira mega sín. Það eru skattalækkunarhugmyndir ríkisstjórnarinnar.

Það hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni að fyrir árið 2005 voru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hærri en boðaðar skattalækkanir. Þetta hefur verið dregið fram með mjög skýrum hætti og reyndar þarf ekki að fara lengra en í fjárlagafrumvarpið sjálft vegna þess að þar er einfaldlega tekið fram og segir í Stefnu og horfum, sem fylgdi með fjárlagafrumvarpinu, að tekjur ríkissjóðs hækka um 7–8% á meðan verðbólgan hækkar um 3,5%. Það er alveg sama hvernig menn fara yfir hundalógík hv. þm. Péturs Blöndals að 7% er mun meira en 3,5%. Þetta endurspeglar aðeins það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera.

Hér hefur einnig verið rætt um persónuafsláttinn og gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að hann hækki um 3%, sem er 0,5% undir verðbólguspá og margir spá mun meiri verðbólgu eins og til að mynda ASÍ. Ég veit ekki hvað Seðlabankinn gerir en hann mun opinbera sína spá á fimmtudaginn.

Það sem hér hefur verið dregið fram er einfaldlega að umrædd skattalækkun er tekjutilfærsla frá þeim sem minna mega sín til þeirra sem meira mega sín í tekjulegu tilliti, það hefur verið dregið fram og hefur farið óskaplega fyrir brjóstið á hv. þingmönnum stjórnarliðsins.

Það mál sem við nú ræðum er hækkun bifreiðagjalda og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir dró það fram á skýran hátt að ef þau gjöld hefðu hækkað í takt við verðlagsþróun væri gjaldið, þ.e. bifreiðagjaldið er lagt á þyngd bifreiða í kílóum án tillits til verðmætis eða vélarstærðar, í dag 4,76 kr. á hvert kíló. Gjaldið sem hér er hins vegar verið að áætla er 9,21 kr. á hvert kíló. Hér er því aðeins verið að benda á það hvert gjaldið væri ef verðlagsþróun hefði verið fylgt, sem hefur verið rauði þráðurinn í röksemdafærslu hv. þingmanna og ekki síst hv. þm. Péturs Blöndals sem hér hefur flutt hverja ræðuna á fætur annarri þar sem hann hefur verið að réttlæta nauðsyn þess að hækka öll gjöld.

Sú var tíðin að hv. þm. barði sér á brjóst og sagðist aðeins hafa eitt verkefni á þinginu, hann væri í „mission“ sem væri í þá veruna að lækka skatta. Hv. þingmaður kemur upp núna í hverju málinu á fætur öðru og segir að það sé alveg ófært og ómögulegt í alla staði ef gjöld og álögur ríkisins hækki ekki í samræmi við verðlagsforsendur þannig að þetta er algjörlega breytt. Ég skil í raun og veru ekki hvernig hægt er að missa gersamlega sjónar á hugsjónum sínum á ekki lengri tíma en raun ber vitni.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá lógík sem hér hefur verið notuð að úr því að gjöld hækki ekki í samræmi við verðlagsþróun sé um skattalækkanir að ræða. Ágætur hagfræðingur ASÍ sem kom á fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun var spurður þessarar spurningar og hann brosti kankvíslega en sagði að það þyrfti kannski ekki langa útreikninga til að komast að þeirri niðurstöðu að færa mætti rök að því að raungildi þeirra fjárhæða sem væru innheimtar mundi minnka vegna verðbólgunnar en að tala um skattalækkanir væri alveg fráleit nálgun.

Sú kenning, sem að einhverju leyti má heimfæra og eigna hv. þm. Gunnari Birgissyni sem kom í ræðustól í gær og færði rök fyrir henni, stenst náttúrlega ekki skoðun á nokkurn hátt, enda væri það væntanlega þannig að það að persónuafsláttur fylgi ekki verðlagsþróun þýðir skattahækkun sem hinir sömu og halda hinu fram hafa alls ekki viljað viðurkenna í mörg ár. Það er því alveg sama hvar borið er niður í þessum efnum, það stendur ekki steinn yfir steini.

Það sorglega við umræðuna, sem hefur gengið illa að fá menn til þess að ræða um, eru hvaða heildaráhrif aðgerðirnar hafa raunverulega á ríkisfjármálin. Ekki umræða um einstakar álögur eða einstök mál heldur að reyna að átta sig á heildarmyndinni sem birtist einmitt með svo skýrum hætti í fjárlagafrumvarpinu. Tekjur ríkissjóðs hækka helmingi meira en verðbólguspá gerir ráð fyrir. Þá koma aftur hin dæmigerðu rök: Já, en það er bara orðin svo mikil velta í samfélaginu, hagkerfið er að stækka svo mikið.

Gott og vel, en þá kemur á daginn í spám þessara sömu manna að hagkerfið er að stækka um 5%. Ríkið er hins vegar að taka til sín milli 7% og 8% meira en í fyrra. Þeir eru því að taka meira af landsframleiðslunni en áður. Það stendur því ekki steinn yfir steini í röksemdafærslu þessara manna og ég skil vel að menn sjái í iljarnar á þeim í hverju einasta máli og að þeir vilji ekki kannast við neitt.

Ég hef reyndar ekki mikið séð framsóknarmenn í umræðunni, en einstaka sjálfstæðismenn hafa stungið höfðinu í ræðustól annað slagið. Það hefur ekki verið til þess að dýpka umræðuna mikið en þeir hafa reynt að færa rök fyrir vonlausum málstað á sinn hátt.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er einfaldlega sú, að þær skattalækkanir sem rætt hefur verið um er aðeins tekjutilfærsla og ekkert annað. Verið er að færa tekjur til þeirra sem meira hafa frá þeim sem minna hafa. Það er hins vegar gert í mörgum smáum skömmtum, en niðurstaðan er einfaldlega þessi: Ríkissjóður er að taka meira til sín af þeim verðmætum sem fyrir eru í samfélaginu en nokkru sinni og þess vegna er fráleitt og afleitt að ríkisstjórnin og þingmenn ríkisstjórnarinnar berji sér á brjóst og tali um byltingarkenndar skattalækkanir. Það er aðeins til þess að reyna að villa um fyrir fólki og draga upp ranga mynd af því sem er að gerast.