131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:28]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég hafði svo sem ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en ég hlýt að vekja athygli á því hve mikið hefur þyngst í allri stemningu hjá stjórnarliðinu í för þeirra í skattamálum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal stóð í þessum sama stól fyrir ekki allt of mörgum dögum og mátti vart mæla af fögnuði, æsingi og gleði yfir tekjuskattslækkun og fleira góðgæti sem í vændum var. Nú heyrum við hjá þeim ágæta hv. þingmanni og raunar kollega hans, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem er eins konar flautaþyrilsíhaldsþingmaður, kveða við allt annan tón. Nú eru þetta bara leiðindi og … (MÁ: Hvað er þingmaðurinn, segirðu?) Flautaþyrilsíhaldsþingmaður.

Nú kveður bara við allt annan tón. Nú er ekkert gaman lengur og nú er það þannig að þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal er spurður af hverju gleðin sé ekki við völd eins og hér fyrri daga, þá er hann orðinn svo leiður og þreyttur.

Með öðrum orðum þá hefur hin meinta sigurför stjórnarliðanna í þá veru að lækka álögur á fólk í landinu og koma færandi hendi eins og jólasveinar gera gjarnan á þessum tímum snúist upp í fullkomna andhverfu sína. Þeir hafa nefnilega allt í einu áttað sig á því — og kemur nú satt að segja vel á vondan, herra forseti, að þessir tveir þingmenn þurfi hér að sitja bekkinn. Hæstv. fjármálaráðherra er auðvitað löngu farinn, búinn að tala fyrir þessu skattahækkunarfrumvarpi sínu og hefur skilið eftir í kviksyndinu hv. þingmenn sem komu hvor um sig inn á þing með hrópum og köllum um að þeirra meginmál á þinginu og í lífinu sjálfu væri að lækka skatta á fólk. (Gripið fram í: Pétur er nú hættur.) En það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann, og það gerðist nákvæmlega í þessu samhengi.

Satt að segja, virðulegi forseti, vorkenni ég dálítið þessum hv. þingmönnum að þurfa að vera í þingsal á þessum myrku dögum stjórnarliða þegar skattalækkun öll hin stóra hefur snúist upp í andhverfu sína og hefur reynst vera skattahækkun og auknar álögur á fólk. Menn hafa sýnt fram á það að hinar meintu skattalækkanir á næsta ári, tekjuskattslækkun upp á 1%, að þegar allt er saman dregið þá eru þeir tæplegast að skila aftur til baka góssinu frá því í fyrra sem þeir tíndu saman í skattahækkunum.

Ég á erfitt með að setja mig í spor þessara hv. þingmanna. En ég vil þó reyna að skilja að þeim líður ekkert afskaplega vel við þessar kringumstæður. Við erum mannlegir í Samfylkingunni og hlustum á hjartslátt fólks. Ég finn að þeim er órótt. Ég heyri það alla leið hingað að þeim er órótt og kalt og heitt á víxl og líður illa undir þessum kringumstæðum því að þeir hafa blekkt fólk til fylgilags við sig. Það er ekkert öðruvísi, herra forseti.

Ég vil hins vegar ekki trúa því að þeir hafi gert það vísvitandi. Ég held að hreinn og klár barnaskapur hafi ráðið för í þessu sambandi og að þeir hafi gleymt sér í hita leiksins og í loforðaglaumnum og loforðaflaumnum fyrir kosningar. Ég vil a.m.k. reyna að trúa að svo sé. (Gripið fram í.) Ég vil trúa því, herra forseti. Nú bætist þriðji hv. þingmaðurinn við og eru þeir nú allir mættir í kviksyndið, skattalækkunarpostular Sjálfstæðisflokksins sem áttu þann draum æðstan að koma inn í þennan sal (Gripið fram í: Er þingmaðurinn ...?) og létta álögum af fólki. En veruleikinn hefur snúist í andhverfu sína og þeir hafa fengið það hlutskipti að þurfa að hanga á græna takkanum og greiða hér skattahækkunum atkvæði sitt með ýmsum hætti.

Menn voru með réttu að rifja það upp fyrr í þessari umræðu hvernig hlutirnir gengu fyrir sig til að mynda í gær í þinginu þar sem smáskammtur af skattahækkunum fór hér inn í formi aukagjalda ríkissjóðs. Menn fóru yfir það lið fyrir lið og gerðu það býsna vel, m.a. hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég hlýddi á það með mikilli athygli og vænti þess að skattalækkunarpostularnir, hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal sem eru nú orðnir talsmenn skattahækkana, hafi gert það líka. Þar fór hv. þingmaður m.a. yfir það að ranghermt var í forsendum frumvarpsins að þar hafi ekki verið hreyft við einu eða neinu eða afskaplega fáu frá því árið 1997. Hv. þingmaður rakti það lið fyrir lið í mjög ítarlegu máli hvernig menn hefðu staðið þessa vakt, m.a. hv. þm. Pétur H. Blöndal, í því að hækka þessi aukagjöld ríkissjóðs, sem eru auðvitað ígildi skatta, á árinu 2000 og á árinu 2001 og árinu 2002 og árinu 2003. Það er því bara ekki rétt að menn hafi ekki staðið vaktina í skattahækkunum. Ég vil að rétt sé rétt.

Á síðasta kjörtímabili og því kjörtímabili sem nú er senn hálfnað hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal sannarlega staðið vaktina í því að hækka allar þessu álögur með mikilli samviskusemi og ekki síst núna sem talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd. Hann hefur staðið þessa vakt algjörlega upp á punkt og prik. Rétt skal vera rétt í þessu sambandi. Hann nýtur nú stuðnings ágætra félaga sinna sem voru kosnir hingað inn til að lækka skatta en hafa fengið það hlutskipti og hlutverk í hendur að hækka þá. Svona vill þetta nú stundum verða í lífinu, virðulegi forseti, að menn ráða ekki við hlutskipti sitt eða hafa ekki áttað sig á því inn í hvaða umhverfi þeir voru að fara og hverjir þeirra vinir voru sem þeir völdu á sínum tíma. Þannig er þetta nú bara og við verðum að horfast í augu við það. En alla hafa þeir samúð mína.

Það rifjast upp fyrir mér dæmi af þessum aukatekjum ríkissjóðs — þau voru nú mörg ágæt tínd til hér í umræðum í gær — sem er auðvitað hluti af þessari skattaumræðu sem við erum að fara í gegnum og birtist nú í dag. Skattahækkunin í dag er í formi bifreiðagjaldsins. Í gær voru það aukagjöldin. Ég vakti athygli á því í lok síðasta kjörtímabils hvernig menn nota allar smugur, allar matarholur sem finnast. Ég vænti þess að hv. þingmenn þekki það til hlítar hvernig menn sækja tugi milljóna, sennilega eru þær farnir að hlaupa á hundruðum núna, í formi útgáfu á vegabréfum og ökuskírteinum. Þar er nú ein matarholan sem skilar verulegum fjármunum í ríkissjóð í formi skatta. Og núna eru það bifreiðagjöldin. Það má ekki gleyma því. Það þarf að leggja það á.

Það eru ýmsar hliðar á þessu bifreiðagjaldi sem ég held að væri ástæða til að menn veltu fyrir sér. Það er auðvitað ekki allt réttlátt í þessari álagningu. Við þurfum ekki annað en fara niður í kjallara á þessu húsi og skoða ólíka bílaeign þingmanna. Þar er greitt nánast sama gjald á bíl sem getur verið upp á 4 millj. kr. og bíl að verðmæti upp á 400 þúsund. Það er bara þyngd bílsins sem ræður för en ekki verðmæti hans. Ég er svo sem ekki með neina sérstaka lausn á þessu. Þetta hefur verið svona um allnokkurt skeið. En þetta vekur mann til umhugsunar um hvort ekki eigi að skoða þetta skattaform miklu nánar en gert hefur verið.

Ég talaði um flautaþyrilshátt áðan, herra forseti, og ég get ekki annað en aðeins skýrt þá nafngift miklu betur. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom í þennan ræðustól, fór mikinn, gerði sig breiðan og vildi kenna mönnum lexíuna og hvernig bæri að lesa úr tölfræði og texta. Látum það liggja milli hluta. Hann hélt því fram eins og félagi hans og vinur hv. þm. Pétur H. Blöndal að allt væri þetta innan eðlilegra ramma og menn væru bara að fylgja verðlagsþróun. Ég heyrði hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson ekki halda svona ræðu úti í Ráðhúsi um daginn þegar var verið að hækka leikskólagjöld í Reykjavík. Ég heyrði hann ekkert tala í þá veruna að það þyrfti að láta leikskólagjöld fylgja verðlagi í landinu. Heldur hann öðruvísi ræður þar en hér eða (Gripið fram í.) hvernig víkur því við? (GÞÞ: Hvað sagði ég í ...?) Ef hv. þingmaður hefur lagt við hlustir og (GÞÞ: Hvað sagði ...?) Ég var að spyrja hv. þingmann að því hvort hann héldi sams konar ræðu úti í Ráðhúsi og hér. (Gripið fram í.) Ég var að spyrja hv. þingmann að því. Hafi hann hlustað þá getur hann kannski svarað.

Það rifjast upp fyrir mér að ég man ekki eftir mjög mörgum ræðum hv. þingmanns í Ráðhúsi Reykjavíkur í svipaða veru og hér, þ.e. að mjög mikilvægt sé fyrir borgaryfirvöld í Reykjavík að breyta þjónustugjöldum. Og þar erum við svo sannarlega að tala um þjónustugjöld. Við erum ekki að tala um skattlagningu í formi aukatekna ríkissjóðs. Þar er verið að tala um þjónustugjöld. Ég þekki það úr sveitarstjórnarmálum og ég vænti þess (Gripið fram í.) að aðrir hv. þingmenn geri það líka. Svo talað sé um leikskólagjöld þá dekka þau kannski þriðjung af útgjöldum vegna leikskóla. Annað er tekið af almennu skattfé. Þar kemur þó vissulega þjónusta á móti. En því er ekki að heilsa hér þegar menn ræða um aukatekjur ríkissjóðs. En menn vilja kalla það því nafni því að það hljómar miklu betur en skattahækkanir. Við skulum kalla hlutina réttum nöfnum. Það fer alltaf best á því. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það þegar til lengdar lætur.

Herra forseti. Vegamálin og skattálögur á bíla eru umhugsunarefni. Við ræddum það í þessum sal fyrir ekki margt löngu hvað hlutirnir geta nú tekið á sig skrýtna mynd satt að segja. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór yfir það og vakti sérstaka athygli á því að samráð olíufélaganna og óhófleg gjaldtaka olíufélaganna á eldsneyti og öðrum vörum hefði raunverulega leitt til þess að ríkissjóður hagnaðist a.m.k. um 600 milljónir. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki væri ástæða til þess að reyna að finna leið til að koma þessum ofteknu fjármunum sem sannarlega voru teknir af borgurunum til baka með einhverjum hætti. Þá var því svarað sisvona að búið væri að eyða þessum peningum og vonandi og væntanlega í uppbyggilega hluti og að ríkissjóður væri auðvitað sjóður allra landsmanna og menn yrðu bara að búa við þennan veruleika.

Mér datt þetta svona í hug í framhjáhlaupi. Þegar menn eru í þessum útreikningum í þá veruna að nú hallist á ríkissjóð og ekki megi bíða boðanna með að hækka bifreiðagjaldið til þess að halda í við verðlagsþróun, hafa menn þá nokkuð gaumgæft það að þessi jöfnunarreikningur er nú kannski ekki jafnskakkur fyrir ríkissjóð og raun ber vitni ef menn til að mynda líta til þess að bensíngjaldið skilaði inn miklu meiri tekjum í ríkissjóð en því bar að gera, allt vegna þess að oflagt var af hálfu olíufélaganna?

Þegar menn nálgast það viðfangsefni að ná inn tekjum fyrir ríkissjóð til þess að standa undir velferðarþjónustu þá þurfa þeir að gaumgæfa þessa stóru mynd. Málin eru bara ekki eins svart/hvít og menn vilja vera láta á þessu blaði hér. Langtum fleiri þættir spila þar inn í. Kjarni máls er þessi.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ljótt af mér að koma í ræðustól og auka enn á eymd og vonleysi hv. stjórnarþingmanna við þessar kringumstæður. Æsingur þeirra og gleði fyrir nokkrum dögum, eins og ég sagði, hefur snúist upp í andhverfu sína. Þreyta þeirra og uppgjöf er auðvitað alger. Það er ekki í stíl okkar jafnaðarmanna að leggjast svona á lítilmagnann. En ég gat ekki stillt mig.