131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:42]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fullyrði að hv. þingmaður vorkennir mér ekki neitt. Ég fullyrði að hv. þingmaður hafi enga samúð með mér. Ég fullyrði að það sem hann er að segja hérna á tilfinninganótum er ekki rétt. Þetta er slagur, herra forseti.

Gleði mín og hamingja yfir skattalækkununum sem við ræddum fyrir nokkrum dögum er enn til staðar. Ég þarf bara að hugsa um það og þá verð ég glaður aftur.

Það sem þreytir mig er að þurfa að spyrja þingmenn Samfylkingarinnar þrisvar sinnum sömu spurningarinnar. Það þreytir mig, en ekki nógu mikið til þess að gleðin hverfi.

Við höfum lækkað eignarskatt, fellt hann niður. Við höfum lækkað erfðafjárskatt og gert hann mjög einfaldan. Við erum búin að einfalda fjármagnstekjuskattinn og við erum búin að fella niður hátekjuskattinn. Er það ekki gleðilegt? Vissulega, og ég varð glaður og ég er enn þá glaður.

Svo ætlum við að lækka tekjuskattinn um 4%, herra forseti. Þetta er til framtíðar.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann enn einu sinni: Þegar krónutala í gjöldum er hækkuð um 3,5% og verðbólgan hefur verið 7%, er það þá raunlækkun eða raunhækkun?

Ég ætla að spyrja aftur, herra forseti, ef ég má: Þegar krónutala í gjöldum hækkar um 3,5% og verðbólgan hækkar um 7%, er það raunlækkun eða raunhækkun? (Gripið fram í: Er þetta spurning?)