131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa á mig þá synd að ég hef aldrei farið út í Ráðhús og hlustað á ræður hv. þm. og ætla aldrei að gera það. En ég hef hins vegar heyrt eftir honum haft í dagblöðum og ljósvakamiðlum, stundum kannski allt of mikið, í þá veruna að hann talar mjög mikið um mikilvægi þess úti í Ráðhúsi og í borgarstjórn Reykjavíkur að lækka þurfi álögur á fólk og hann talar mikið um mikilvægi þess að þjónustugjöldum þurfi að stilla í hóf. Svo víkur því svo við, og þar kemst ég ekki hjá því, virðulegi forseti, að þurfa að hlusta á ræður hans, að í þessum sal talar hann hins vegar með allt öðrum hætti, þá talar hann um mikilvægi þess að ríkissjóður fái sitt og ver það núna með ráðum og dáð, bæði í gær og í dag, að hækka álögur í aukatekjum ríkissjóðs sem eru auðvitað ígildi skatta. Nú vill hann hækka bifreiðagjöldin og álögur á bifreiðaeigendur í landinu. Það er þessi flautaþyrilsíhaldsháttur sem ég var að vísa til áðan og ég heyri nú ekkert hjá hv. þm. sem gerir það að verkum að ég þurfi endilega að skipta um skoðun eða heiti í því sambandi.