131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:52]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei sérstaklega gefið mig út fyrir að vera sérlega glaður í þessari skattaumræðu því að ég hef haft áhyggjur af fólki, skattgreiðendum í landinu, um leið og skattapólitík ríkisstjórnarinnar kom inn í þennan sal. Ég þarf því ekkert að undirgangast það að vera skælbrosandi í ræðustól og reyna að telja fólki trú um að ég sé afskaplega glaður með þessa stöðu mála.

Innskot hv. þingmanns sannaði eiginlega nákvæmlega það sem ég sagði, að honum veitist afskaplega létt að gagnrýna það úti í Ráðhúsi að stundum þurfi að hækka álögur á fólk, hvort sem það er í formi þjónustugjalda, útsvars eða fasteignagjalda, ég ætla ekkert að leggja mat á það. Hins vegar vitum við öll í þessum sal að sveitarfélögin í landinu, og ég hugsa að hv. þingmaður viti það kannski ekkert síður en hver annar, hafa verið keyrð niður af ríkisvaldinu og vantar eðlilega fjármuni til reksturs þjónustustigsins. Það er hins vegar önnur saga. Síðan kemur hv. þingmaður í þennan sal og byrjar að halda allt aðra ræðu og telur bara afskaplega eðlilegt og sjálfsagt að menn hækki álögur á fólk í hvaða formi sem það er, bifreiðagjald, bensíngjald, aukatekjur ríkissjóðs og hvaða nöfnum sem hann kann að nefna.

Að lyktum, bara til að halda því til haga, herra forseti: Samfylkingin er afskaplega skýr í stefnumörkun sinni í þessum efnum. Hún vill lækka matarverð um helming, það sama og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningar en hefur svikið eftir þær. (Gripið fram í.) Samfylkingin vill hækka persónuafsláttinn og hún vill strax á næsta ári skila til baka einhverju af þeim ránsfeng sem búið er að taka af barnafjölskyldunum í landinu með því að snarhækka barnabætur strax á næsta ári. En það ráða þeir auðvitað ekki við, blessaðir stjórnarliðarnir, frekar en svo margt annað.