131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:45]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ungt par fer til náms og tekur námslán. Er það slæmt? Nei. Það er að fjárfesta í menntun sem er þjóðhagslega mjög gott. Síðan kemur þetta unga fólk til Íslands og kaupir sér íbúð og allt í einu vaxa skuldir heimilisins gífurlega. Er það slæmt, herra forseti? Nei. Það er gott vegna þess að eignin er á móti, það stendur eign á móti. Þetta fólk borgar í lífeyrissjóð alla ævi. Er það slæmt? Nei. Í lífeyrissjóðunum eiga Íslendingar rúmar 3 millj. að meðaltali, hvert einasta mannsbarn, litlu börnin líka. Það er meira en allar skuldir heimilanna sem er í lífeyrissjóðunum. Svo á fólk hlutabréf og lausafé þannig að staðan er ekkert slæm. Þetta er ekki slæmt þegar maður lítur á allar þessar eignir sem standa á móti. Þessar eignir hafa hækkað sem aldrei fyrr. Hækkun á íbúðarhúsnæði, hlutabréfum o.s.frv. geta menn aftur á móti sett spurningarmerki við.

Herra forseti. Við þurfum samt að gæta varúðar og fólk almennt þarf að gera það. Menn þurfa að átta sig á því hvað lántaka er. Lántaka er ekkert annað en ráðstöfun á framtíðartekjum viðkomandi einstaklings og hann hefur ekki nema takmarkaðar framtíðartekjur, sérstaklega ef hann er kominn á efri ár. Þetta þarf hver einasti einstaklingur að athuga. Og það er einstaklingurinn sem ég treysti til að athuga þetta. Ég held að stjórnmálamenn eigi ekki að hafa vit fyrir fólki í þessu.

Það er alveg á hreinu að mjög margir hafa tekið kollsteypu og farið offari í því að taka lán. Það sýna árangurslaus fjárnám, þau eru allt of mikil, og ég vara fólk við því núna að taka þessi ódýru lán nema til þess að fjárfesta í eignum sem hækka. Ekki t.d. í bílum, utanlandsferðum eða slíku.