131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:51]

Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum skuldastöðu fyrirtækja og heimila. Það kemur auðvitað ekkert á óvart að hv. stjórnarandstaða dregur hér upp sem dekksta mynd af stöðunni og að málflutningurinn er nokkuð einhliða. Staðan er sú að skuldastaðan er há en það þarf ekki endilega að þýða að efnahagslífið standi höllum fæti. Við ættum frekar að skoða ástæður þess að tölurnar eru eins og þær eru. Hver skyldi sú ástæða vera? Jú, hún er sú að staða efnahagsmála hér á landi er mjög traust. Hagstjórn síðustu ára hefur leitt til meiri stöðugleika en lengi hefur þekkst í íslensku efnahagslífi. Kaupmáttur hefur aukist um 40% frá árinu 1995 og stefnir í 55% aukningu í lok kjörtímabils. Þessi þróun er einstök þótt víða sé leitað.

Þessi langvarandi stöðugleiki hefur að sjálfsögðu þau áhrif að fyrirtæki og heimili lifa ekki í óvissu um næstu ár. Fyrirtæki sem og heimili eru því betur í stakk búin til að gera áætlanir til framtíðar og skuldsetja sig. Það kom t.d. fram í fjölmiðlum í síðustu viku að sjávarútvegurinn leið töluvert fyrir það fjárhagslega í síðustu kosningabaráttu að mikil óvissa var uppi um framhaldið vegna þess að stefna flokkanna er ólík í sjávarútvegsmálum. Það var því mikill léttir fyrir útveginn að stjórnarmynstrið skyldi haldast óbreytt. Þetta er dæmi um það hvað óstöðugleiki getur gert.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að við stöldrum við og skoðum þróunina. Við eigum að hvetja til varfærni og ég tek undir aðvaranir hæstv. forsætisráðherra vegna neyslulána. Það er mjög mikilvægt að við myndum eignir á móti skuldunum. Við verðum þó að líta á heildarmyndina og passa okkur á því að mála ekki skrattann á vegginn þó að okkur bregði við tölurnar. Fyrirtækin í landinu standa í öflugri útrás sem er jákvæð þróun. Hún kostar mikið og eflir mjög fjármálakerfið hér heima.