131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:56]

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson byggði framsöguræðu sína mjög á nýlegri skýrslu BSRB um skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Það verður hins vegar að segja að sú skýrsla er á margan hátt mun jákvæðari en ráða mátti af ræðu hans sem stafar af því að í þeirri skýrslu eru dregnir fram fjölmargir þættir sem geta skýrt skuldastöðuna í samanburði við önnur lönd og hæstv. forsætisráðherra hefur ágætlega gert grein fyrir.

Það eru nokkrir mikilvægir þættir í þessu sambandi. Skuldir hins opinbera hafa dregist saman á undanförnum árum. Ríkið hefur í stórum stíl greitt upp skuldir sínar þótt sveitarfélögin hafi vissulega aukið þær. Frjálsræði á fjármagnsmarkaði veldur miklu um breytingarnar sem orðið hafa og þær hafa auðveldað mjög aðgang að erlendu lánsfjármagni sem í heildina er auðvitað góð þróun.

Það er hins vegar rétt að of mikil skuldsetning, skuldsetning umfram getu, getur valdið hættu og miklar erlendar skuldir gera þjóðarbúið viðkvæmara fyrir sveiflum. Íslendingar allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, verða þess vegna að gæta sín í lántökum og þurfa auðvitað að auka sparnað. Ég held að við getum öll verið sammála um það.

Það er ekki nóg að gera eins og stjórnarandstaðan gerir hér, að koma í ræðustól Alþingis og hafa óskaplegar áhyggjur. Menn verða líka að segja aðeins hvað þeir vilja gera.

Ég spyr: Vill stjórnarandstaðan hverfa aftur til hafta og miðstýringar á fjármálamarkaði? Vilja samfylkingarmenn sem töluðu hvað hæst um Evrópuvexti fyrir síðustu kosningar lýsa áhyggjum sínum í dag af því að vaxtastig til íbúðakaupenda hefur lækkað? Vilja menn bregðast við aukinni skuldasöfnun með því að hækka skatta á sparnað? Vinstri grænir hafa lagt fram tillögu um það í þinginu. Vilja stjórnarandstæðingar hjálpa ríkisstjórnarflokkunum að hemja vöxt hins opinbera í stað þess að koma alltaf með nýjar og nýjar útgjaldatillögur? Vilja menn í stjórnarandstöðunni hjálpa ríkisstjórninni að lækka skatta þannig að svigrúm heimilanna til að borga niður skuldir aukist?