131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:01]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. málshefjanda að íslenska þjóðarbúið skuldar nú 2.400 milljarða kr., þ.e. þrefalda landsframleiðslu. 1.200 milljarðar af þessu eru í erlendum skuldum.

Hæstv. ráðherrar tala um aukinn hagvöxt undanfarinna ára. Það má segja að hann hafi að mestu leyti verið keyrður áfram af aukinni einkaneyslu. En á hvaða forsendum hefur vaxandi neysla almennings byggst? Að einhverju leyti má rekja hana til kaupmáttaraukningar undanfarinna ára en vöxtur neyslu hefur verið mun meiri en vöxtur kaupmáttar. Hraðari vöxtur neyslu en kaupmáttar bendir til þess að heimilin séu í auknum mæli að fjármagna framtíðarneyslu sína með lántökum.

Hér hefur komið fram að íslensk heimili eru mjög skuldsett. Talið er að skuldir þeirra séu um 200% af ráðstöfunartekjunum og hafi tvöfaldast sl. fimm ár. Skuldir heimilanna í erlendum myntum eru sérstakt áhyggjuefni. Hér hefur komið fram að þær séu komnar í 27 milljarða kr. og hafi hækkað um 200% frá sama tíma í fyrra.

Virðulegi forseti. Hvað gerist gagnvart þessum erlendu skuldum þjóðarbúsins og heimilanna ef gengið fellur um 15–20%, bandarískur dollari kostar í kringum 80 kr. og erlendir lánardrottnar hækka vexti sína um 1–1,5%? Getur það verið að í þessu dæmi sem ég er hér að taka hækki greiðslur okkar til erlendra lánardrottna um allt að 20 milljarða kr. á ári vegna þessa?

Ef þessi leikur minn að tölum er réttur skapast hér, ég ætla að leyfa mér að segja, bara erfitt ástand hjá okkur Íslendingum. Ég ætla ekki að kveða sterkar að.

Herra forseti. Skuldasöfnun heimilanna og þjóðarbúsins í heild sinni er verulegt áhyggjuefni, svo og sofandaháttur og sjálfumgleðiháttur ráðherra í núverandi ríkisstjórn gagnvart þessu.