131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:07]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið mjög góð og ég tel að hún hafi fært okkur heim sanninn um það að stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum er rétt. Hér hefur m.a. komið fram að það megi reikna með því að heimilið greiði jafnvel um það bil 20% af ráðstöfunartekjum sínum til afborgana lána og vaxta. Hvaða fólk skyldi þetta vera? Þetta er unga fólkið, fólkið með millitekjurnar og ríkisstjórnin er einmitt að lækka skattbyrði þessa fólks.

Stjórnarandstaðan hefur gert mikið úr því undanfarna daga að þetta sé rangt en ég tel að stjórnarandstaðan hafi sannað með þessum umræðum í dag að við erum þarna einmitt á réttri leið. Við erum að lækka skattbyrði heimilanna, skattbyrði unga fólksins og fólksins með millitekjurnar, fólksins sem er með miklar skuldir.

Ég tel að það sé afskaplega jákvætt hvað við eigum orðið öflugan fjármálamarkað, fjármálamarkað sem getur lánað eðlileg húsnæðislán, fjármálamarkað sem er ekki lengur að lána ungu fólki peninga til íbúðakaupa á yfirdráttarlánum, víxlum og öðrum slíkum lánum sem við þekkjum úr fortíðinni.

Ég tel það líka mjög jákvætt að við eigum banka og fjármálakerfi sem getur stutt við heilbrigða uppbyggingu íslensks atvinnulífs og útrás íslensks atvinnulífs erlendis. Ef við ættum ekki þessar traustu fjármálastofnanir væri engin útrás meðal Íslendinga í dag. Þetta er grundvöllur hagvaxtar. Á sama tíma eigum við að sjálfsögðu að hvetja til varúðar og hvetja einstaklinga til að fara varlega en við hljótum að gleðjast yfir því að fjármálamarkaðurinn skuli vera jafnsterkur og hann er.