131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:10]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald.

Lög um úrvinnslugjald öðluðust gildi 1. janúar 2003 og frá sama tíma tók Úrvinnslusjóður til starfa. Starfsemi sjóðsins hefur verið umfangsmikil og jafnframt gengið vel í öllum meginatriðum.

Þegar frumvarp til laga um úrvinnslugjald var lagt fram var ljóst að nauðsynlegt væri að gjaldtaka samkvæmt lögunum yrði endurskoðuð reglulega sem og hvaða vörur skyldu bera úrvinnslugjald, enda er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 4. gr. laganna að svo skuli vera. Í því ákvæði er kveðið á um að umhverfisráðherra leggi fram, að fenginni tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs, tillögu til fjármálaráðherra um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds, álagningu skilagjalds og nýjar gjaldskyldar vörur og að fjármálaráðherra flytji frumvarp á Alþingi um fjárhæðir úrvinnslugjalds. Frumvarp það sem hér liggur fyrir er unnið í samráði við fjármálaráðuneytið með vísan til framangreinds ákvæðis. Frumvarpið varðar hins vegar ekki eingöngu „fjárhæðir úrvinnslugjalds og skilagjalds“ heldur varðar meginbreytingin álagningu nýrrar gjaldskyldrar vöru, þ.e. pappa-, pappírs- og plastumbúða. Það er sameiginleg niðurstaða fjármálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis að umhverfisráðherra flytji þetta frumvarp. Ég geri nú grein fyrir helstu breytingum þess.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar er varða úrvinnslugjald á umbúðir. Lagt er til að úrvinnslugjald verði lagt á allar umbúðir úr pappa, pappír og plasti. Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald er í ákvæði til bráðabirgða III kveðið á um að leggja skuli úrvinnslugjald á pappa- og plastumbúðir frá 1. janúar 2005 án nánari útfærslu í lögunum. Í frumvarpinu er útfært hvernig sú framkvæmd eigi að vera. Samkvæmt tilskipun 94/62/EB, um umbúðir og umbúðaúrgang, er stjórnvöldum skylt að ná sem svarar 50–65% af þessum umbúðum til endurnýtingar.

Umbúðaúrgangur er til kominn annars vegar vegna umbúða sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar inn tómar vegna innlendrar vöruframleiðslu og svo hins vegar vegna vöru sem flutt er til landsins í umbúðum. Forsenda fyrir álagningu úrvinnslugjalds á tiltekinn vöruflokk við tollafgreiðslu er að unnt sé að afmarka vörurnar í vöruflokknum með tollskrárnúmerum. Vörur eru tollflokkaðar eftir eðli þeirra en ekki eftir umbúðategund eða umbúðamagni. Af þessu leiðir að við álagningu úrvinnslugjalds á umbúðir þarf að fara aðrar leiðir við ákvörðun gjaldsins en við aðra vöruflokka. Mikill hluti vara er fluttur inn í pappa- eða plastumbúðum af einhverju tagi og því hefði þurft að leggja úrvinnslugjald vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða á mikinn fjölda tollskrárnúmera.

Sú leið sem lögð er til hér er að ákvarða úrvinnslugjaldið vegna þessara umbúða á grunni upplýsinga sem innflytjendur og framleiðendur gefa upp við tollafgreiðslu um þyngd umbúða. Innflytjendur munu gefa þessar upplýsingar við venjubundna tollskýrslugerð en viðræður hafa átt sér stað milli Úrvinnslusjóðs og tollstjórans um breytt fyrirkomulag við innheimtu á úrvinnslugjaldi á pappa- og plastumbúðir og er niðurstaða þeirra lögð til grundvallar í frumvarpi þessu.

Þessi leið felur í sér hvata til að minnka magn umbúða utan um vöru þar sem greitt er á grunni raunþyngdar umbúða. Gera má ráð fyrir að innflytjendur muni sjá sér hag í að flytja inn vörur með lágmarksumbúðum til að lækka kostnað sinn. Þetta fyrirkomulag mun væntanlega hafa áhrif á framleiðendur til að minnka umbúðir vöru. Vegna þessa er lagt til að bætt verði inn í lögin skilgreiningu á hugtakinu umbúðir.

Í frumvarpinu er lagt til að álagning úrvinnslugjalds á nýjar umbúðir hefjist ekki fyrr en 1. september 2005. Ég vil hins vegar leggja áherslu á það að greiðsla út úr Úrvinnslusjóði vegna móttöku umbúða frá fyrirtækjum og bylgjupappa frá söfnunarstöðum sveitarfélaga skal þó hefjast fyrr, þ.e. frá og með 1. apríl 2005, en vegna annarra umbúða 1. desember 2005. Jafnframt er lagt til að frá gildistöku laganna og til 15. mars 2005 starfi sérstök nefnd til að undirbúa móttöku á umræddum umbúðum sem berast með söfnunarkerfi sveitarfélaga. Þetta er gert til að leysa þann vanda sem snýr að söfnun hjá sveitarfélögunum en ljóst er að gefa verður þeim rúman tíma til að skipuleggja söfnun flokkaðs umbúðaúrgangs frá heimilum. Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs skal sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi, bera ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu.

Í öðru lagi er lögð til lækkun úrvinnslugjalds á fjóra vöruflokka til að koma á jafnvægi í rekstri þessara flokka. Við áætlanagerðina er miðað við að jafnvægi náist á rekstrarafkomu vöruflokka á 4–5 árum. Lagt er til að úrvinnslugjald á samsettar drykkjarvöruumbúðir lækki um tæp 55%, á rafhlöður 50%, á hjólbarða tæp 17% og tæp 33% á ökutæki. Lækkun úrvinnslugjalds á samsettar drykkjarvöruumbúðir taka þó ekki gildi fyrr en 1. september nk.

Í þriðja lagi er lagt til að skilagjald á ökutæki hækki um 50%, þ.e. í 15 þús. kr. en það er það gjald sem fólk fær þegar það skilar bifreið til endurvinnslu. Fjölgun bifreiða á liðnum árum umfram þær sem eru afskráðar til úrvinnslu er umtalsverð. Við það hefur myndast sjóður í flokki ökutækja og skil hafa ekki verið viðunandi að mati Úrvinnslusjóðs. Hækkun á skilagjaldi í 15 þús. kr. er hvatning til eigenda bifreiðar að koma henni til meðhöndlunar og förgunar í safnstöðvum sveitarfélaga.

Í fjórða lagi er lagt til að fleiri ökutæki falli undir úrvinnslukerfið en áður. Við nánari skoðun og aldursgreiningu á bifreiðaeign landsmanna kom í ljós að um 29 þús. bifreiðar sem ekki eiga rétt á skilagjaldi eru enn á skrá hjá Umferðarstofu. Nokkuð stór hluti þessara bifreiða eða allt að helmingur er talinn vera á skrá Umferðarstofu með innlögð númer þrátt fyrir að búið sé að farga þeim.

Í gildandi lögum eiga eigendur bifreiða sem skráðar voru fyrir 1. janúar 1988 ekki kost á skilagjaldi og greiða ekki úrvinnslugjald en með því frumvarpi sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir að því verði breytt og að eigendur allra ökutækja yngri en 25 ára eigi rétt á skilagjaldi við afskráningu hafi þeir greitt a.m.k. einu sinni úrvinnslugjald af bifreiðinni.

Með frumvarpinu er sem sagt gert ráð fyrir því að af öllum bifreiðum skuli greiða úrvinnslugjald í full 15 ár eða þar til bifreiðin verður 25 ára, hvort sem verður á undan en þó nægi að greiða gjaldið einu sinni til að bifreiðin sé komin inn í kerfið og eigandinn eigi rétt á skilagjaldi. Til samræmingar á lögum um bifreiðagjald sem innheimta úrvinnslugjalds á ökutæki fylgir nær innheimta úrvinnslugjalds ekki til bifreiða sem náð hafa 25 ára aldri og teljast þar með fornbílar sem ekki falla undir úrvinnslukerfið.

Í fimmta lagi eru lögð til rýmri ákvæði til að semja um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu tiltekins úrgangs. Úrvinnslusjóður hefur sérstaklega fjallað um óskir útgerðarmanna um að ábyrgjast sjálfir úrvinnslu veiðarfæraúrgangs og að veiðarfæri væru þar með undanþegin úrvinnslugjaldi. Stjórn Úrvinnslusjóðs hefur tekið undir óskir útgerðarmanna enda telur hún að rétt sé að gefa atvinnugreinum tækifæri til að leysa úrgangsmál sín. Framkvæmdin verður hins vegar að uppfylla markmið laganna auk þess sem eftirlit með henni verði í höndum Úrvinnslusjóðs. Í ljósi þess er lögð til breyting á 3. mgr. 8. gr. þannig að auk svartolíu verði hægt að gera samninga vegna veiðarfæra og kveðið er á um hvað skuli koma fram í slíkum samningi. Einnig er lagt til að fresta álagningu úrvinnslugjalds á veiðarfæri til 1. september 2005 þar sem ljóst er að atvinnulífið þarf lengri tíma til að gera þær ráðstafanir sem ég hef gert grein fyrir til að tryggja úrvinnslu veiðarfæraúrgangs en það er unnið að því hjá þeim aðilum sem málið snertir.

Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að á árinu 2005 lækki tekjur af úrvinnslugjaldi og kostnaður við úrvinnslu úrgangs um rúmlega 350 millj. kr. frá því sem verið hefði að óbreyttum lögum en að frá og með árinu 2006 hækki tekjur og gjöld hins vegar um tæpar 216 millj. kr. á ársgrundvelli. Tekjur ríkissjóðs af 0,5% umsýslugjaldi hækka við það um 1 millj. kr. á ári.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhverfisnefnd.