131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:24]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það skýst alltaf skelkur í bringu mína þegar hæstv. ráðherrar tala um að hitt og þetta hafi óveruleg áhrif. Tveir dagar eru liðnir síðan hér var verið að breyta gjöldum og það var sagt að það mundi hafa óveruleg áhrif á þróun neysluvísitölu. Þessi óverulegu áhrif voru 0,08% og það kom í ljós að það hafði áhrif til hækkunar á skuldum landsmanna um 1 milljarð kr.

En ég vona að þetta verði eitt af því sem verður skoðað í meðferð nefndarinnar, og vísast er rétt hjá hæstv. ráðherra að miðað við þær tölur sem hún fór með er líklegt að heldur verði þetta til lækkunar en hækkunar, a.m.k. næstu tvö árin.

Að því er varðar sjávarútveginn þá er ég orðinn æðiþreyttur á að sú grein virðist vera eins konar fríríki í ríkinu og fær því allt fram sem hún þarf til að skjóta sér hjá því að fylgja reglum sem við höfum verið að basla við að setja í þinginu.

Ég rifja það upp þegar menn settu sérstök ákvæði um að frystitogarar ættu að koma með allan úrgang að landi. Ákveðinn tímafrestur var settur. Þegar kom að honum var hlaupið í gegnum þingið af hálfu unnenda þessarar ágætu greinar og hér var lögum breytt í flýti til að koma í veg fyrir að sjávarútvegurinn hlítti þessum fyrirmælum. Honum var leyft að halda áfram bæði að menga hafið og jafnframt að kasta verðmætum. Nú blasir við að sjávarútvegurinn var seldur undir gildistöku þessa ákvæðis sem í allra nánustu framtíð átti að taka gildi og hæstv. ráðherra kemur núna hingað og segir: Hann er ekki reiðubúinn og það er ekki stætt á öðru en að láta hann fá frekari undanþágu.

Ég tek það ekki gilt. Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegurinn verði að hlíta þessum lögum og áskil mér allan rétt til að ræða málið í þaula þegar það kemur hingað til frekari afgreiðslu.