131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:56]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil bregðast við nokkru af því sem þingmenn drápu á í umræðunni um þetta mál. Það er alveg ljóst að það er mikill áhugi fyrir því og mjög fín umræða hefur farið fram. En sérstaklega hvað snertir bílana vil ég taka mjög skýrt fram að meginreglan er að borgað sé af bílum í 15 ár. Það sem hefur gerst er, eins og hv. þm. Mörður Árnason kom réttilega inn á. Stór hluti þeirra 14.500 bifreiða sem eru sannanlega enn þá til, hefur ekki komið til förgunar og er á skrá hjá Umferðarstofu með innlögð númer þannig að þær eru ekki í notkun. Það er alveg skýrt. Tilgangurinn með þessu ákvæði er að koma bílum í rétta meðhöndlun, sá er megintilgangurinn. Til að það sé gert þarf að hafa borgað af þeim a.m.k. einu sinni. Það hvetur þá til þess að fólk skili bílnum til endurvinnslu. Hins vegar er það hárrétt hjá honum að einhverjir af þessum bílum eru í umferð og það þýðir auðvitað að verið er að leggja gjald á þá bíla sem ekki hefur verið lagt á áður. Það er hárrétt.

Síðan var dagblaðapappírinn nefndur. Dagblöðin falla undir almenna sorphirðu sveitarfélaganna. Það má vel vera að sveitarfélögin vilji grípa til sérstakrar úrvinnslu á dagblöðum, það verður bara að koma í ljós en það fellur ekki undir verkefni Úrvinnslusjóðs.

Ég get tekið undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um að frumvarpið sé seint fram komið og að æskilegra hefði verið að það hefði komið fram fyrr. Þetta er mjög flókið mál. Sú er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að málið kemur ekki fram fyrr. Hér er um mjög flókið mál að ræða og tímaþátturinn í þessu var þannig að ekki náðist að koma því fyrr fram.

Hvað það snertir að umhverfisráðherra mæli fyrir frumvarpinu að þessu sinni er það fyrst og fremst vegna þess að ekki er eingöngu um upphæðir að ræða í frumvarpinu en það er mjög skýrt í lögum hvernig skuli fara með þessi mál og hvert sé hlutverk fjármálaráðherra.

Hvað snertir skilgreiningar á umbúðum sem eru í frumvarpinu tel ég að þær séu ekki flóknar en ef umhverfisnefndin getur bætt eitthvað úr tel ég afskaplega gott ef hægt væri að gera þetta enn þá einfaldara.

Ég ítreka líka með veiðarfærin, af því að ýmsir hafa nefnt að ekki þyrfti þennan frest til viðbótar, að ég tel kannski ekki útilokað að menn þyrftu ekki að nýta frestinn til fulls. Það væri gleðiefni ef svo væri en ég tel auðvitað rétt að nefndin skoði þessi mál. Að síðustu þakka ég fyrir þessa ágætu umræðu.