131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:04]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég geri mér grein fyrir því að það er þannig og það hvetur þá væntanlega þá sem í raun og veru reka ekki bifreið, ef bifreiðin er bara ónýt og er bara drasl eða ekki til lengur, til að klára sín mál gagnvart kerfinu. Það sem ég er að tala um er að það er hópur sem á sennilega um 14.500 bifreiðar samkvæmt útreikningum sem koma frá hæstv. umhverfisráðherra sem þarf að borga þetta gjald líka og borgaði það ekki áður.

Við höfum ekki rætt um ástæður fyrir því að þessum hópi var sleppt á sínum tíma en það er satt að honum var sleppt þannig að það að leggja núna gjald á hann er skattahækkun. Nú vantar hv. þm. Pétur Blöndal til að ræða það mál mjög ítarlega í andsvörum sem hann gerði á glæsilegan hátt í gær. Nú er hann allt í einu horfinn, sá hv. þm., en hér er hæstv. umhverfisráðherra og þá verður að vera klárt að með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, er verið að hækka gjald á ákveðnum hópi sem er alveg fáránlegt að fara að draga hér inn til að fjármagna skattalækkunarkreddur kollega hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Ég vil bara vekja athygli á þessu og ég segi það að ég ætla að berjast gegn þessari skattahækkun í umhverfisnefnd eins og ég er vanur að berjast gegn skattahækkunum af margvíslegum toga. Ég er miklu sannari í því en þeir hv. þm. sem hér sitja og hafa glennt sig og geiflað og gólað um einmitt það hvað þeir séu góðir við skattgreiðendur en reynast svo vera hinir verstu svíðingar og kremjendur í vösum venjulegrar alþýðu og fátæks fólks þegar til stykkisins kemur enda eru þeir ekkert að hugsa um það heldur bara lærðu þeir einhverja lexíu í Heimdalli í gamla daga og fara enn með hana eins og einhverja bilaða plötu. Það er allur munur á því hvað er hjá þeim í hinu gamla orði eða hvað verður uppi á hinu stóra borði þegar þeir eru sestir við það, blessaðir karlarnir.