131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:27]

 félmn.Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fagna menn nýjum liðsmönnum og ég fagna því. Ef ég hef skilið hv. þm. Össur Skarphéðinsson rétt sem er fyrrum ritstjóri Þjóðviljans og barðist hér fyrir sósíalisma og þjóðfrelsi, ef ég man rétt, og þjóðnýtingu og mjög harkalega gegn eignarréttinum, er hann kominn í lið með okkur sem viljum ýta undir séreignastefnu í húsnæðismálum. Ef svo er er það auðvitað mjög ánægjuleg þróun, gott að taka undir hana og ég fagna henni sérstaklega.

Hvað varðar þróun á markaðnum og bankakreppu var það alveg skilgreint markmið mitt hér, og ég held að það skipti máli fyrir okkur þingmenn, að fara yfir þetta mál og vekja athygli fólks á því hvað það þýðir þegar menn taka 90 eða 100% lán. Kannski hef ég gert það með svo hressilegum hætti að ég var búinn að hræða hv. þingmanninn svo að hann sér fyrir sér bankakreppu. Ég sá ekkert slíkt fyrir mér, alls ekki. Ég var fyrst og fremst að vísa í lántakendur, að þeir viti af þessu. Þegar þingmenn tala um þessa hluti, og ég er kannski frekast að vísa til þess þegar menn kalla hér upp að þeir vilji fá 90% lán upp í 20–25 millj. og annað slíkt, eru viðkomandi aðilar ekki að gera neitt annað en að ýta undir hækkun fasteignaverðs og þenslu. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því ef þetta frumvarp nær fram að ganga að slíkt verði uppi og ég sé enga bankakreppu fyrir. (Forseti hringir.) Ég held hins vegar að við eigum iðulega að tala varlega um mál sem þessi.