131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt nokkrum öðrum þingmönnum í stjórnarandstöðunni sem sæti eiga í félagsmálanefnd skrifað undir álit þetta með fyrirvara um einstaka þætti málsins. Ég vil gera stuttlega grein fyrir honum hér.

Frá því að þetta mál var hér til 1. umr. hafa enn betur komið í ljós þær sviptingar sem eru í fasteignaviðskiptum og útlánum til þeirra. Mig minnir að tilboð um 100% lán sem bankar bjóða nú að hámarksfjárhæð 25 millj. hafi komið eftir að við ræddum málið við 1. umr. Líka hafa komið upplýsingar frá Seðlabanka um 55–56 milljarða útlán til einstaklinga hjá bönkum frá 23. ágúst til októberloka og að sama skapi 40 milljarða uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði. Ekki er ólíklegt að 10–15% af þeim útlánum hjá bönkunum hafi farið í einkaneyslu, kannski 6–8 milljarðar af þessum 55 milljörðum.

Mér kom á óvart svar sem ég fékk frá hæstv. viðskiptaráðherra. Væntanlega hefur hæstv. ráðherra leitað til bankanna til að fá svör við þeirri spurningu en bankarnir virðast ekki geta upplýst um það hvernig þessi miklu útlán upp á 55 milljarða skiptast á milli annars vegar lána til fasteignakaupa og hins vegar til endurfjármögnunar. Það er umhugsunarvirði að Seðlabanki Íslands hafi ekki slíkar upplýsingar.

Mér finnst það hafa verið staðfest í nefndinni sem ég hélt fram við 1. umr., að úr því sem komið væri út af innkomu bankanna inn á markaðinn mundi það litlu breyta þótt hámarksfjárhæðin á lánum hjá Íbúðalánasjóði yrði eitthvað hærri en áform ráðherrans eru, að það mundi ekki hafa þensluhvetjandi áhrif eða neikvæð efnahagsleg áhrif að fara þarna örlítið hærra upp. Sú hækkun hverfur raunverulega í skuggann af þeim víðtæku lánamöguleikum sem bankarnir hafa nú sett fram þar sem eru 80% lán með engu þaki og 100% lán með hámarksfjárhæð 25 millj. kr.

Það hefur raunverulega verið staðfest af fulltrúum þeirra sem komu á fund nefndarinnar, bæði Hagfræðistofnunar og Seðlabanka, að þetta mundi litlu breyta fyrir þensluna. Eins og ég hef bent á mun fólk bara leita í auknum mæli til bankanna og endurfjármagna lán sín þar og flytja frá Íbúðalánasjóði.

Eftir umfjöllun í nefndinni er ég alveg sannfærð um að stjórnvöld eiga, a.m.k. um hríð, að búa þannig að Íbúðalánasjóði að hann geti veitt bönkunum nauðsynlegt aðhald. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að ekki séu nægjanlega traustar stoðir undir fjármögnun lánanna hjá bönkunum, a.m.k. ekki hjá öllum lánastofnunum, og tilgangurinn sé fyrst og fremst að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum eins og ég hef sagt.

Í umfjöllun okkar í félagsmálanefnd kom fram að vísað var til álits sænsks ráðgjafarfyrirtækis sem sérhæfir sig á sviði fjármálaráðgjafar og hefur verið að vinna fyrir Íbúðalánasjóð að undanförnu. Þetta fyrirtæki er vel þekkt á norræna markaðnum og þar kom fram að þeir telja að bankar og sparisjóðir þurfi að vera með 0,6–1,2% hærri vexti en Íbúðalánasjóður ef allt er tekið með í reikninginn.

Mín skoðun er sem sagt sú — var við 1. umr. og ég hef enn herst í þeirri skoðun — að það þurfi að hækka hámarksfjárhæðina. Vegna þeirra miklu uppgreiðslna sem Íbúðalánasjóður stendur frammi fyrir, hreinlega af því að hann er ekki samkeppnisfær, þarf líka að auka sveigjanleikann í veðmörkum á 1. veðrétti vegna annarra lána þannig að fólk sé ekki neytt til þess að flytja allan lánapakkann með sér frá Íbúðalánasjóði yfir í bankana einungis til þess að geta skuldbreytt mjög óhagstæðu bankaláni upp á kannski 1–3 millj.

Þess eru dæmi að fólk hafi verið að flytja hagstæð byggingarsjóðslán til þess að ná fram skuldbreytingu á einu óhagstæðu bankaláni sem hvílir á eigninni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það og það lýtur m.a. að fyrirvara okkar á hámarksfjárhæðinni sem er breytt með reglugerð: Eru einhver áform uppi af hálfu hæstv. ráðherra varðandi það að fara eilítið hærra í hækkun á hámarksfjárhæðinni? Eru uppi hugmyndir um að auka sveigjanleikann í veðmörkum á 1. veðrétti vegna annarra lána til þess að verja sjóðinn gegn þessum uppgreiðslum sem eru mjög miklar og hafa verið frá því í ágústmánuði?

Hér var aðeins farið inn á fasteignaverðið. Það er raunverulega staðreynd að fyrir þá fjárhæð sem nú er hægt að fá lánaða hjá Íbúðalánasjóði, þ.e. um 11,5 millj., held ég, sem á að fara í 13 millj. þegar þetta frumvarp tekur gildi, er nú einungis hægt að fá litla kjallaraholu eða kannski tveggja herbergja íbúð. Íbúðalánasjóður hefur sett fram að þeir telji sig þurfa að geta veitt lán sem tryggi það að þeir geti lánað fyrir fjögurra til fimm herbergja íbúð. Höfum við fengið frá Fasteignamatinu yfirlit yfir þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir hafa hækkað verulega mikið. Við erum að tala um að lítil 70 fermetra íbúð hefur hækkað um nærri 2,5 millj. á einu ári. Við erum að tala um að íbúð upp á 110–130 fermetra hefur hækkað á einu ári úr 14,7 millj. í 17,2 þannig að við erum að tala hér um verulega hækkun. Ég hygg að Íbúðalánasjóður sé að tala um íbúðir á bilinu 110–130 fermetra sem eru í dag um 17 millj. Mín skoðun er sú að það þurfi að fara hærra með hámarksfjárhæðina og það þurfi strax að fara með hámarksfjárhæðina í 15–16 millj. sem mundu duga fyrir, eins og ég segi, kannski fjögurra herbergja íbúð af þessari stærð sem ég nefndi. (Gripið fram í: … skuldir heimilanna.)

Það er gripið hér fram í fyrir mér og sagt að það muni auka skuldir heimilanna. Við höfum farið yfir það í nefndinni og staðreyndin er bara sú að ef við gerum Íbúðalánasjóð ekki samkeppnishæfan mun fólk leita í auknum mæli til bankanna. Það mun stuðla að þenslu vegna þess að þeir lána ekki til fólks bara miðað við fasteignaviðskipti, heldur bara eins og fólk vill fá. Það er þó ákveðið þak og bremsa hjá Íbúðalánasjóði. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður starfi áfram um hríð þar til bankarnir hafi sannað að þeir séu ekki fyrst og fremst í þessari útrás núna til að ýta Íbúðalánasjóði til hliðar þannig að þeir geti þá hagað sér á markaðnum eins og þeim sýnist þegar þeir eru búnir að koma Íbúðalánasjóði út af honum. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að við gerum hann samkeppnishæfari til að takast á við bankana meðan þeir eru að sanna sig.

Við höfum séð verulega mikla hækkun á fasteignaverði. Það hefur komið fram í vísitölunni. Frá nóvember 2003 til nóvember 2004 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,8% og þar af vegur húsnæðisliðurinn í vísitölunni 1,5%. Það er nú alveg gífurlega mikið í vísitölunni og hefur áhrif á verðbólguna og kjarasamninga. Sumir spá meira að segja að íbúðaverð muni halda áfram að hækka frá því sem það er núna.

Varðandi markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs er alveg ljóst að hún hefur dregist verulega saman. Við erum með tölur frá Íbúðalánasjóði sem sýnir á undanförnum vikum að samanborið við sömu mánuði á síðasta ári hefur samdráttur í lánum verið allt að helmingur. Raunar töldu fasteignasalar sem komu á fund nefndarinnar að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs á þessum síðustu vikum í nýjum fasteignaviðskiptum væri, að mig minnir, 15–25%. Við sjáum hvaða sviptingar eru hér að eiga sér stað og hvernig bankarnir reyna með markvissum hætti að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum. Mín skoðun er sú að flestir af þessum bönkum, eða a.m.k. margir þeirra og margir sparisjóðanna líka, séu ekkert í stakk búnir til að veita lán með þessum vaxtakjörum. Eins og ég nefndi áðan og vitnaði þá í þetta sænska matsfyrirtæki telur það að almennir vextir í bönkunum til fasteignaviðskipta þurfi að vera 0,6–1,2% hærri en þeir eru í dag. Bankarnir eru raunverulega að niðurgreiða lánin, niðurgreiða fasteignalán sín, í þeim eina tilgangi að mínu viti að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum til þess að þeir geti svo hagað sér þar eins og þeir vilja þegar þeir hafa náð fram ætlunarverki sínu.

Lánveitingar til landsbyggðarinnar og félagsleg lán komu nokkuð til umræðu. Það hefur komið fram hjá bönkunum og reyndar Samtökum atvinnulífsins líka að þeir vilja bara að Íbúðalánasjóður breytist í nokkurs konar Byggðastofnun sem láni fyrst og fremst til landsbyggðarinnar og félagslegra nota. Það hefur bara komið skýrt og skilmerkilega fram og það er alveg ljóst að Íbúðalánasjóður mun ekki án mikilla ríkisstyrkja geta verið með fyrirgreiðslu og lánveitingar til landsbyggðarinnar og til leiguíbúða og félagslegrar aðstoðar. Hann verður að geta lánað út almennt til þess að eiga það mögulegt.

Það kom á óvart í bréfi frá Samtökum banka og verðbréfasjóða að samkvæmt þeim upplýsingum sem þau höfðu aflað sér væri búið að lána um 60 milljarða, þ.e. 5 milljörðum meira en þegar við vorum að skoða þessar tölur fyrir stuttu, og að af þeim hefðu um 64% farið til lántakenda á höfuðborgarsvæðinu og 36% til lántakenda á landsbyggðinni. Þetta eru ótrúlega háar tölur varðandi landsbyggðina þannig að við fengum upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins um hvernig þessar lánveitingar hefðu skipst milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar. Þar koma upp allt aðrar tölur. Þar kemur fram að af heildarlánveitingum á þessum mánuðum, þ.e. frá ágústmánuði, hafi aðeins 13–14% farið til landsbyggðarinnar. Þetta eru allt aðrar tölur en við fengum upplýsingar um frá Samtökum banka og sparisjóða.

Ég held að ég þurfi ekkert að hafa miklu fleiri orð um þessi mál. Við í minni hlutanum höfum haft fyrirvara og ég vil aðeins lýsa þeim. Þeir lúta að því sem fram kemur í frumvarpinu, að samkvæmt því er mögulegt að skerða hámarkslánið, króna á móti krónu, vegna áhvílandi lána sem hvíla á íbúðum. Það skerðir auðvitað hámarksfjárhæðina. Rökin eru þau að þetta sé krafa frá ESA, þessi skerðing verði að eiga sér stað með þeim rökum að Íbúðalánasjóður sé með yfirgnæfandi markaðsstöðu á þessum markaði og þess vegna þurfi að vera með þessa skerðingu, króna á móti krónu. Við höfum það bara fyrir okkur að þetta er gjörbreytt landslag frá því fyrir nokkrum vikum. Bankarnir eru með miklu stærri hlut í nýjum lánveitingum en nokkurn tímann Íbúðalánasjóður þannig að ég tel að þessi rök séu ekki til staðar. Þess vegna getur þetta ákvæði um skerðingu, króna á móti krónu, ekki átt að vera í frumvarpinu. Mun ég sitja hjá við afgreiðslu þess ákvæðis. Ég held sem sagt að það sé einfaldlega rangt að Íbúðalánasjóður sé í markaðsráðandi stöðu sem voru rökin fyrir þessu ákvæði í frumvarpinu.

Ég hef líka efasemdir um það sem er verið að setja hér inn hjá meiri hlutanum og kemur fram í breytingartillögunum um uppgreiðsluálagið. Þarna vill meiri hlutinn fá inn ákvæði sem heimilar að fólk geti valið um hvort það taki lán með eilítið hærri vöxtum og þurfi ekki að greiða sérstakt uppgreiðsluálag ef það óskar eftir að greiða upp lánið. Uppgreiðsluálagið er raunverulega komið inn í það vaxtaálag sem sjóðurinn hefur nú, þessi 0,6%. 0,25% af því eru áætluð vegna uppgreiðslu. Síðan hafi fólk valið um að fá þá vaxtakjör, t.d. 0,25% neðar, þ.e. 3,90%, en þá gengst það undir það að sjóðurinn áskilji sér, ef lántaki vill greiða upp slíkt lán með þessum lægri vöxtum, þóknun sem aldrei nemur hærri fjárhæð en sem nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslunnar. Miðað við þetta eins og það er sett fram getur sjóðurinn tekið, ef fólk velur lægri vextina, hugsanlega mismun á markaðsvöxtum eins og þeir eru á þeim tíma þegar fólk vill greiða upp lánið og á útlánavöxtum eins og þeir voru þegar viðkomandi tók lánið. Þarna getur verið um verulega háa fjárhæð að ræða.

Meiri hlutinn leggur líka til að slík heimild til að taka uppgreiðsluþóknun gangi yfir á leiguíbúðirnar. Ég tel mjög vafasamt að fara þessar leiðir, ekki síst þegar Samkeppnisstofnun hefur ekki úrskurðað í þessu álitamáli. Leitað var til Samkeppnisstofnunar um það hvort bankarnir hefðu í raun og sanni heimild til að veita lán með slíku uppgreiðsluákvæði og bent á að lög um neytendalán kæmu í veg fyrir slíkt.

Eins og framsögumaður tók fram er hvatt til þess að sú heimild sé ekki nýtt fyrr en kominn er þessi úrskurður og niðurstaða og það er auðvitað vörn í málinu.

Ég held að ég hafi þá gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem lúta að þessum ákvæðum, króna á móti krónu, uppgreiðsluálaginu, af því að ég tel nauðsynlegt að fara hærra með þessa hámarksfjárhæð en nú liggur á borðinu og ég tel rétt að auka sveigjanleikann í veðmörkum. Þá vísa ég til þess sem stendur í nefndarálitinu, virðulegi forseti, um það ákvæði. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í nefndinni var rætt um hvaða möguleika Íbúðalánasjóður hefði til að mæta þörfum fólks með eldri óhagstæðari lán frá sjóðnum og til að verja sjóðinn uppgreiðslu. Fram kom af hálfu fulltrúa félagsmálaráðuneytis að kannaðir yrðu möguleikar þess að heimila sjóðnum að fallast á takmarkaðar veðsetningar framar eldri lánum sjóðsins.“

Um þetta spyr ég hæstv. ráðherra líka.

Loks er það spurning mín sem lýtur að félagslega íbúðakerfinu sem mér finnst við ekki hafa fengið nægjanleg svör við í félagsmálanefnd þar sem við fjölluðum um þetta. Fyrir liggja tillögur nefndar um hvernig efla eigi leigumarkaði, m.a. eru þar tillögur um að til álita komi að veita stofnstyrki til byggingar leiguíbúða fyrir sérstaka hópa aldraðra, öryrkja og námsmanna sem búa við erfiðar aðstæður og eru með tekjur og eignir innan tiltekinna tekju- og eignamarka. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það.

Einnig er bent á það að breyta ákvæðum um húsaleigubætur. Ég vil spyrja hvaða áform eru uppi varðandi leiguíbúðirnar einnig. Ég hef áhyggjur af stöðunni á leigumarkaðnum, þótt staðan hafi kannski batnað á almenna leigumarkaðnum eru miklir erfiðleikar hjá lágtekjufólki sem á allt undir því að geta fengið leiguíbúðir hjá sveitarfélögunum eða hjá félagasamtökum eins og Öryrkjabandalaginu. Ég held að lítið hafi saxast á biðlistana sem voru síðast þegar ég skoðaði um 2 þús. manns. Þess vegna spyr ég í lokin hæstv. ráðherra hvaða áform séu uppi um það að efla leigumarkaðinn gagnvart því fólki sem er á biðlista eftir leiguíbúðum hjá sveitarfélögunum og félagasamtökum.