131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Það skal koma skýrt fram af minni hálfu, virðulegi forseti, að ég tel að innkoma bankanna á fasteignamarkaðinn hafi verið mjög jákvæð. Ég tel að þeir hafi gert marga góða hluti með innkomu sinni, sérstaklega fyrir fólk sem hefur þurft að breyta óhagstæðum lánum, verið með lán kannski á 8–10% vöxtum hjá bönkunum. Þarna hafa bankarnir opnað fyrir möguleika hjá þessu fólki til að skuldabreyta erfiðum lánum og það er vissulega mjög jákvætt. Þeir hafa haft þarna ákveðið frumkvæði að því að ná niður vaxtastiginu. Það var tími til kominn vegna þess að bankarnir hafa haldið uppi allt of háu vaxtastigi í langan tíma og hefðu fyrir lifandis löngu átt að vera komnir inn á þennan markað.

Það gera þeir ekki fyrr en þeir sjá niðurstöðuna frá ESA sem gerði enga athugasemd við starfrækslu Íbúðalánasjóðs. Þeir verða auðvitað að átta sig á stöðu sinni, sjóðirnir, að keyra ekki harðar fram en þeir mögulega þola. Það hefur komið fram, og hv. þingmaður veit það, í umfjöllun um starf okkar í nefndinni að Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við það að a.m.k. einhverjar lánastofnanir séu á grensunni og þurfi að huga betur að áhættustýringu. Það hefur líka komið fram frá Íbúðalánasjóði að sænskt matsfyrirtæki telur að vaxtakjör ýmissa lánastofnana séu hærri en þessir bankar raunverulega geta, eða sparisjóðir eða hverjir það eru. Þetta verða þeir auðvitað að eiga við sjálfa sig og fara ekki lengra þá í samkeppnina en þeir treysta sér þannig að það séu þá bærilegar stoðir undir því sem þeir veita.

Það er það sem ég hef gert athugasemdir við, að þeir séu bara í þessu í þeim eina tilgangi að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum.