131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Það er ekkert markmið í sjálfu sér hjá mér að halda þannig á málum að Íbúðalánasjóður starfi hér um alla eilífð. Hv. þingmaður orðaði það svo að ég vildi að Íbúðalánasjóður lifði af. Já, ég held að hann eigi erindi enn þá, Íbúðalánasjóður, meðan bankarnir eru að sanna sig. Það eru ótraustar stoðir undir útlánum ýmissa banka.

Ég get endurtekið mig aftur og aftur með það að ég tel að hlutverk Íbúðalánasjóðs sé afar mikilvægt þannig að bankarnir fái að sanna sig, að þetta séu þá lánveitingar til frambúðar sem þeir geti veitt fólki á þessum hagstæðu kjörum en að tilgangurinn sé ekki bara að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum. Því miður, virðulegi forseti, held ég að það sé meginmarkmið þeirra.