131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:41]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það væri ágætt ef hæstv. félagsmálaráðherra greiddi þessari góðu tillögu atkvæði, þá mundi hann sýna ábyrgð í starfi. Tillagan fjallar um að veitt verði aukið fé í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess að mæta sárustu vöntun sem mörg sveitarfélög standa frammi fyrir hvað varðar fjárhag til rekstrar. Þetta eru 250 millj. kr. Við horfum upp á það að ríkið er stöðugt að flytja aukin verkefni til sveitarfélaganna. Það breytir lögum þannig að tekjustofnar sveitarfélaganna rýrna. Þau standa frammi fyrir því að halda uppi þjónustu, þá selja þau eigur sínar, hitaveitur og jafnvel skóla til þess að standa í skilum. Ástandið er ófært og ekki Alþingi eða ríkisvaldi samboðið. Við berum sameiginlega ábyrgð á þessum verkefnum. Ef sveitarfélögin vantar fjármagn en ríkið hefur nóg fjármagn á að veita það til sveitarfélaganna. Þess vegna á að segja já við þessari góðu tillögu.