131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:17]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem unnið er í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem gert var í sumar. Eins og fram hefur komið er meiningin að heimila Íbúðalánasjóði að hækka lán sín í 90% af hóflegu íbúðarhúsnæði, þó með tilteknu hámarki sem nú er 11,5 millj. kr. Markmið lagasetningarinnar er að viðskiptamenn Íbúðalánasjóðs geti notið heildstæðrar lánsfjármögnunar þegar þeir kaupa sér húsnæði og að allir geti haft jafnan aðgang að lánsfé til þeirra þarfa á lágum vöxtum, óháð búsetu og efnahag, ef þeir standast mat.

Ef þau markmið nást verður ekki þörf fyrir svokölluð viðbótarlán sem veitt hafa verið efnaminna fólki, sem þýðir að ekki verður frekari þörf fyrir framlög sveitarfélaganna til þeirra hluta. Sveitarfélögin hafa lagt 1.100 millj. kr. í viðbótarlánin frá árinu 1999. Auk þessa eru hér ákvæði sem liðka fyrir breytingum á félagslegum íbúðamarkaði hjá sveitarfélögunum og ákvæði um lán til leiguíbúða. Loks er verið að veita Íbúðalánasjóði heimild til að bjóða upp á uppgreiðslu eldri lána og það að bjóða viðskiptamönnum sínum að afsala sér slíkum rétti gegn lækkun á vöxtum.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að ræða þessi mál öðruvísi en að koma inn á þá stöðu sem uppi er á fasteignamarkaðnum nú um stundir, þ.e. um aðkomu og innkomu bankanna á markaðinn sem hefur á örfáum mánuðum valdið mikilli hækkun á fasteignaverði og býður heim hættu á yfirveðsetningu vegna þess að nú er verið að bjóða ekki aðeins 80% lán með 25 millj. kr. hámarki, heldur allt að 100% lán með 4,1% vöxtum án þess að um eiginleg fasteignaviðskipti sé að ræða. Því er ekki nema von að menn hafi haft uppi varnaðarorð. Við heyrðum það í ræðum hv. þingmanna í dag, bæði vegna mikillar skuldsetningar heimilanna sem fyrir er, en einnig telja margir hverjir að bankarnir séu að ganga lengra en flestir þeirra þola. Við heyrðum þær skoðanir gesta í hv. félagsmálanefnd að kannski væri bara einn bankanna sem gæti staðið undir tilboðunum til lengri tíma og til langframa. Á þetta hafa m.a. sænskir ráðgjafar á vegum Íbúðalánasjóðs bent.

Málið sem hér liggur fyrir hefur verið í undirbúningi í rúmt ár, frá sumrinu 2003. Hvað skyldi hafa gerst síðan þá? Á síðustu 12 mánuðum hefur vísitala fasteignaverðs hækkað um 12,5%. Verð á íbúðarhúsnæði hefur samkvæmt sömu vísitölu hækkað um 100% á tíu árum frá því að vísitalan var sett. Hún er sett á 100 árið 1994 og er komin í 209 samkvæmt síðustu tölum sem ég sá. Hækkunin hefur orðið gífurlega brött á síðustu mánuðum.

Veltan á markaðnum er gríðarlega mikil. Fram kom í fasteignablaði Morgunblaðsins 29. fyrra mánaðar að á síðustu 12 vikum hefur veltan að jafnaði verið 4,5 milljarðar í viku hverri. Það þýðir að í hverri viku eru yfir 260 fasteignasölur í þéttbýlinu suðvestanlands og á Akureyri inni í þeirri tölu. Yfir 260 sölur í hverri viku. Bankarnir komu inn á markaðinn fyrir 12 vikum með lánsfjártilboð sín. Meðalverð íbúða síðan þá er 17,6 millj. kr. á höfuðborgarsvæðinu og 16,1 millj. kr. á Akureyri.

Breytingin er ekki einungis fólgin í hækkun á fasteignaverði. Vextir hafa líka lækkað niður í 4,15 og lántökugjald hefur lækkað niður í 1% úr 2%. Miðað við þær tölur þar sem heildarveltan er milli 50 og 60 milljarða kr. er ekki nema von að varnaðarorð heyrist, einkum í ljósi skuldsetningar heimilanna, fyrirtækjanna og þjóðarbúsins í heild sem var til umræðu fyrr í dag. Í því efni nálgumst við heimsmet sem skýrsla BSRB, sem einnig hefur verið rædd, bendir á. Fram hefur komið að hlutdeild Íbúðalánasjóðs í þessu 55–60 milljarða kr. lánsfé á síðustu vikum er ekki nema 15%–25%. Þetta kom fram hjá fulltrúum Félags fasteignasala í hv. félagsmálanefnd, en í fylgiskjölum frumvarpsins í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að sjóðurinn hafi um 60% hlutdeild. Þarna hafa því orðið miklar breytingar.

Markmiðin sem sett eru í frumvarpinu og tilgangur Íbúðalánasjóðs eru alveg skýr. Miðað er að jöfnun í aðgangi að lánsfé hvar sem er á landinu með lágum vöxtum. Þetta er gríðarlega mikilvægt í samfélagi okkar þar sem séreignastefnan í húsnæðismálum tröllríður enn því miður öllu. Til þess að 90% lánin sem stefnt er að standi undir nafni þarf að hækka hámarksfjárhæðina úr 11,5 millj. kr. Einnig þarf að liðka til fyrir viðskiptamenn sjóðsins þannig að þeir geti fengið heildstæða lánsfyrirgreiðslu og fjármögnun á húsnæðiskaupum sínum hjá sjóðnum.

Miðað við þær tölur sem ég nefndi um meðalverð í fasteignaviðskiptum síðustu 12 vikur, 16–17,6 millj. kr., og miðað við þær tölur sem við fengum uppgefnar m.a. frá Félagi fasteignasala og frá Fasteignamati ríkisins í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um meðalverð á 100–110 fermetra íbúð … (GÞÞ: Félagsmálanefnd.) Félagsmálanefnd, þarna varð mér fótaskortur á tungunni eins og einhver sagði, þetta er auðvitað hv. félagsmálanefnd sem fékk upplýsingarnar og fjallaði um frumvarpið. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ábendinguna. En miðað við tölurnar tel ég einsýnt að það dugi ekki minna en að miða við 17 millj. kr. eign í þessum efnum. Þetta segi ég þrátt fyrir að bent hafi verið á að hugsanlega væri sú fjárhæð of lág og að fara þyrfti nær 20 millj. kr. Ég tel að lágmarkið sé að miða við 17 millj. kr. meðalverð á íbúð til að 90% lánin standi undir nafni.

Ég tel mjög mikilvægt að búið sé vel að Íbúðalánasjóði af þeim ástæðum sem ég hef fyrr rakið. Ég tel mig hafa fengið fullvissu um það hjá gestum í hv. félagsmálanefnd að sú viðbót sem um ræðir á fasteignamarkaðnum muni ekki valda kollsteypu á markaðnum úr þessu og muni ekki setja þensluna út fyrir öll mörk. Ég held að hún sé kannski komin þangað nú þegar. Það skiptir miklu máli að fólk geti farið í endurfjármögnun og geti fengið húsnæðislán heildstætt án þess að þurfa að fara á marga staði.

Ég sat sem áheyrnarfulltrúi í félagsmálanefnd þar sem fjallað var um frumvarpið og styð það álit sem hér liggur fyrir. Það er eitt álit frá nefndinni, en ég ítreka þá fyrirvara sem gerðir eru af hálfu minni hlutans. Þeir eru einkum vegna óvissu um ákvörðun á því hvernig uppgreiðsluálagið á að vera annars vegar og hins vegar vegna hámarksfjárhæðarinnar sem ég hef gert að umtalsefni.