131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:56]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rétt til að bregðast við lokaorðum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vil ég segja að ég hef ekkert útilokað í þeim efnum. Sú nefnd sem ég vitnaði til í ræðu minni skilaði ágætu áliti með hugmyndum um ákveðnar breytingar og tillögum þar um. Við erum að fara yfir það í félagsmálaráðuneytinu.

Ég þakka þann stuðning sem ég finn fyrir í orðum hv. þingmanns við þá meginstefnu sem hér hefur verið lögð. Ég átti svo sem ekki von á því, hæstv. forseti, að við hv. þingmaður mundum kannski endilega ná saman í þessari umræðu um endanlega krónutölu þessa hámarksláns. En eins og ég rakti í máli mínu þá liggja að baki þessari ákvörðun minni um hækkun hámarkslánsins mjög skýr rök. Þarna er verið að horfa til meðalverðs síðastliðinna sex mánaða á íbúðum af þeirri stærð sem skilgreind er sem meðalstærð íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Þegar það er tekið saman þá er meðalverð þeirra síðastliðna sex mánuði 16,6 milljónir, 90% af því eru 14,9. Þannig er þessi krónutala fundin og þannig þurfum við að horfa til þessa í framtíðinni.