131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:41]

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur ekkert fram í skýringartexta við ákvæði til bráðabirgða um að þar skuli vera fulltrúi frá umhverfisráðuneytinu. Það segir einfaldlega að þingflokkarnir skipi hver sinn mann, síðan koma þrír fulltrúar frá Samorku og tveir sem ráðherra skipar sjálfur. Ég spyr aftur: Hvar er náttúruverndin í þessu landi?

Og hæstv. ráðherra: Hvar er Samband íslenskra sveitarfélaga og þeir sem gæta hér að eignar- og landréttindum í landinu?

Ég er þeirra skoðunar, og fullyrði að ég er ekki ein um það, að hér er tekið til mála sem falla ekki með eðlilegum hætti undir verksvið iðnaðarráðuneytis til hreinnar nýtingar auðlindarinnar án tillits til alls annars. Það má lesa það út úr þessum texta. Það kemur mér verulega á óvart ef þetta er unnið í samráði við umhverfisráðuneytið eða að umhverfisráðuneytið hafi skrifað þennan texta. Því á ég hreinlega erfitt með að trúa, hæstv. forseti.

Ég tel algert lágmark að þetta mál fái umfjöllun í umhverfismálanefnd þingsins, ekki síður en í iðnaðarnefnd. Hér er sannarlega verið að tala um náttúruleg gæði og okkur ber, sem aðilum að Ríó-sáttmálanum, að gæta að sjálfbærri nýtingu þeirra. Við það mat á náttúran að njóta vafans. Við höfum lög um þessa hluti og það hlýtur að verða að taka tillit til þeirra.