131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:43]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf ekki að koma á óvart að þetta hljóð heyrist úr herbúðum Vinstri grænna. Hér er um að ræða frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hv. þingmenn þess stjórnmálaflokks eru ekki mikið fyrir nýtingu á auðlindinni. (ÁI: Þetta eru útúrsnúningar …) Ég vil aðeins leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp úr greinargerð um 2. gr. frumvarpsins:

„Um leit, rannsóknir og nýtingu auðlinda samkvæmt lögum þessum gilda einnig náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlög og önnur lög sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða þó að það sé ekki sérstaklega tekið fram í frumvarpinu, enda leiðir það af eðli máls. Það ræðst því af ákvæðum þessara laga hverju sinni hvort einnig er skylt að afla leyfis, t.d. byggingar- eða framkvæmdaleyfis, leyfis Umhverfisstofnunar á friðlýstum svæðum, eða gera breytingu á aðalskipulagi, deiliskipulagi eða friðlýsingu áður en heimilt er að ráðast í framkvæmdir á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu jarðrænna auðlinda.“

Það eru fleiri lög í landinu en þessi. Það veit hv. þingmaður, en við verðum einhvern veginn að setja mörk á milli valdsviða ráðuneyta. Með þetta mál fer iðnaðarráðuneytið og svo hefur verið þannig frá því lög voru sett í landinu um þetta efni.