131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:48]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var óljóst svar, en ég tel að þetta verði að vera alveg ljóst, vegna þess að í greinargerðinni heldur umræddur texti svo áfram, með leyfi forseta:

„Í núgildandi lögum er ekki að finna sérstakt markmiðsákvæði. Rétt þykir hins vegar að slíkt ákvæði sé fyrir hendi enda gefur það vísbendingu um hver sé tilgangurinn með lögunum og hvaða sjónarmið Orkustofnun ber að hafa að leiðarljósi við auðlindastjórnun.“

Það er þetta sem skiptir máli. Ef í lögunum stendur „skynsamleg stjórn og hagkvæm nýting frá samfélagslegu sjónarmiði“ þá er hægt að túlka það þannig, eins og Framsóknarflokkurinn gerir oft í hlutverki sínu sem hinn pólitíski armur Landsvirkjunar, að nýtingin sé umfram allt, það beri að nýta alla hluti og klára þá sem allra fyrst, þannig að ég endurtaki röksemdafærslu ráðherrans áðan í andsvari við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. En ef hinn skilningurinn er á ferðinni, þ.e. sá að orð greinargerðarinnar séu í fullu gildi, og við eigum þá að færa orð greinargerðarinnar inn í markmiðsgreinina, 1. gr., þá hins vegar skýtur skökku við að fela Orkustofnun að gæta þess að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða.

Það verður því að vera alveg á hreinu, forseti, hvað hæstv. ráðherra meinar, því það er hún sem leggur fram frumvarpið og getur ekki vísað neitt annað með það, hún getur ekki vísað því inn í nefndina. Við verðum því að vita hvað hæstv. iðnaðarráðherra vill sjálf, hvort skynsamleg stjórn og hagkvæm nýting náttúruauðlinda frá samfélagslegu sjónarmiði þýði að við nýtingu þeirra sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða.

Þetta vil ég fá á hreint, já eða nei, vegna þess að ef svarið er já þá getur Orkustofnun ekki ein verið ábyrg fyrir því að frumvarpið nái markmiði sínu þegar það verður að lögum.