131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:09]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst í raun sorglegt að ekki skuli vera hægt að tala um nýtingu auðlinda á hv. Alþingi á málefnalegum nótum, að við getum ekki rætt hér um nýtingu auðlinda.

Hv. þingmaður sem kom hér upp og er þar að auki stjórnarmaður í Landsvirkjun, hinu stóra orkufyrirtæki okkar Íslendinga, talar ekki um nýtingu auðlinda. Hún er á móti nýtingu auðlinda, stjórnarmaður í Landsvirkjun. Ég segir það satt að ég er sorgmædd yfir því að hv. þingmenn skuli tala með þeim hætti sem þeir gera þar sem við Íslendingar höfum nú aldeilis haft ágóða af því sem þjóð að nýta auðlindir okkar, bæði vatnsaflið og jarðvarmann. Svo kemur hv. þingmaður hér upp, stjórnarmaður í Landsvirkjun, og hefur áhyggjur af því að iðnaðarráðuneytið sé að sölsa undir sig alla hluti. Ég man ekki hvort það var hún eða einhver annar sem spurði hér áðan hvort það ætti ekki bara að leggja niður umhverfisráðuneytið.

Þetta er frumvarp um nýtinguna. Þarf ekki lög um nýtingu? Hvernig er það? Svo tala hv. þingmenn um að vísa þessu máli til umhverfisnefndar. Þetta er nýtingarfumvarp. Við ætlum að setja nýtingarlög og það er allt annað. Hver hefur sinn málaflokk í stjórnsýslu Íslands.

Ég segi það bara satt að ef stjórnarmaður í Landsvirkjun, skipaður þar af Reykjavíkurborg, meðeiganda okkar, er á móti meginmarkmiði fyrirtækisins sem er að nýta auðlind og virkja þá er ekki vel komið fyrir þessu fyrirtæki.