131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:11]

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki meginmarkmið Landsvirkjunar að nýta auðlindina okkar, hvort sem það er jarðvarmi eða vatnsafl, öðruvísi en með sjálfbærum hætti. Það er aðalatriði þessa máls, hæstv. ráðherra.

Ég er eins og fram hefur komið einn þriggja fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar og við erum ekki endilega alltaf sammála um það þar hversu nærri landinu skuli ganga við nýtingu vatnsafls eða jarðvarma.

Ég bara frábið mér, hæstv. ráðherra, fullyrðingar á borð við þær að ég sé á móti nýtingu auðlinda í þessu landi. Við Íslendingar erum svo rík af náttúrulegum auðlindum. Ég er á móti því að nýta þær með skammtímasjónarmið, með gróðasjónarmiðið að leiðarljósi. Þó að málefni hæstv. ráðherra varði nýtingu auðlindanna þá eru Íslendingar aðilar að alþjóðasáttmálum, m.a. Ríó-sáttmálanum, um að stuðla að sjálfbærri þróun og nýta náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti. Það er stefnan sem við eigum að hafa. Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er stefna mín og það er þannig sem ég vinn á vegum Reykjavíkurborgar innan Landsvirkjunar.